Viðskipti innlent

Brotajárni breytt í stál til útflutnings

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eina stálbræðslan hérlendis, sem hóf starfsemi í fyrra, er nú í fyrsta sinn að skipa út stáli til útflutnings. Hráefnið er margskyns brotajárn sem til fellur á Íslandi. 

Fyrirtækið heitir GMR endurvinnslan, sem stendur fyrir Geothermal Metal Recycling, en er þó í einföldu máli stálbræðsla. Allskyns brotajárni er sturtað ofan í risastóran bræðsluofn, málmurinn bræddur upp og hreinsaður og síðan mótaður að óskum kaupenda. Þarna starfa fjörutíu manns en í dag urðu tímamót. Það var komið skip að sækja stál. 

Þetta er fyrsti farmurinn sem GMR selur úr landi en ráðamenn fyrirtæksins segja að slíkt hafi ekki verið gert hérlendis frá því stálbræðsla starfaði um skamma hríð í Hafnarfirði fyrir aldarfjórðungi. 

„Við erum náttúrlega mjög ánægðir með að vera að búa til verðmæti úr því brotajárni sem fellur til á Íslandi,“ sagði Sigurður Ágústsson, framkvæmdastjóri GMR endurvinnslunnar, í fréttum Stöðvar 2. Með þessu væri jafnframt verið að skapa störf og gjaldeyristekjur. 

Stálið lestað á Grundartanga í dag.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Í brotajárnshaugnum sáum við meðal annars leifar af skurðgröfu en mest kemur þó frá álverunum og þau eru líka stærstu kaupendur að stálinu, sem kemur úr bræðslunni, og nota það í straumteina í kerskálum. Stálið á hafnarbakkanum er hins vegar á leið til kaupenda í Egyptalandi. 

„Við erum fyrst og fremst þjónustufyrirtæki fyrir álverin á Íslandi. Þetta er svona aukaafurð.“ 

Vera má að sumt af því sem hér er verið að skipa út hafi áður pirrað menn sem gamalt véladrasl bak við húskofa eða út í móa. 

Þetta er algert þjóðþrifafyrirtæki, sagði Sigurður aðspurður á Stöð 2, brotajárni væri breytt í útflutningsverðmæti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×