Viðskipti innlent

Inga Birna nýr framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos

Atli Ísleifsson skrifar
Kristján Gunnarsson, Inga Birna Ragnarsdóttir og Guðmundur Bjarni Sigurðsson.
Kristján Gunnarsson, Inga Birna Ragnarsdóttir og Guðmundur Bjarni Sigurðsson.
Inga Birna Ragnarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjá vefstofunni Kosmos & Kaos.

Inga Birna starfaði áður sem framkvæmdastjóri og aðstoðarforstjóri flugfélagsins WOW air og í stjórnunarstöðum hjá Icelandair, Flugfélagi Íslands og 365 miðlum. Í tilkynningu segir að Inga Birna hafi áralanga reynslu af rekstri, sé viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Inga Birna er einnig varamaður í stjórn Íslandsstofu og hefur setið í ýmsum stjórnum og nefndum síðastliðin ár.

„Þetta er spennandi tækifæri, ég hlakka mikið til að vinna með hæfileikaríku fólki hjá Kosmos & Kaos og taka á móti nýjum áskorunum í leiðinni. Rekstur Kosmos & Kaos hefur gengið mjög vel, tækifærin eru okkar og við ætlum að grípa þau,“ segir Inga Birna.

Kristján Gunnarsson, einn stofnenda og viðskiptastjóri Kosmos & Kaos segir Ingu Birnu hafa sem stjórnandi reglulega verið í hlutverki kaupanda á þjónustu vefhönnunarfyrirtækja og þekkir þarfirnar mjög vel. „Inga Birna hefur líka gríðarlega reynslu af rekstri og uppbyggingu fyrirtækja. Þetta er rétti tíminn til að láta manneskju með mikla rekstrarreynslu fá framkvæmdastjórahattinn,“ segir Kristján.

„Kristján Gunnarsson og Guðmundur Bjarni Sigurðsson hafa rekið Kosmos & Kaos saman frá upphafi. Í sumar var greint frá því að bandaríska fyrirtækið UENO LLC. hafi keypt þriðjungshlut í fyrirtækinu og styrkti sú fjárfesting félagið mjög. Ráðning Ingu Birnu í stól framkvæmdastjóra kemur í kjölfar þessa og er liður í stækkunaráformum sem unnið er að í samvinnu við UENO.

Kosmos & Kaos hefur verið leiðandi á sviði vefhönnunar, vefþróunar og stafrænnar markaðssetningar. Síðastliðin ár hefur Kosmos & Kaos hlotið fjölda viðurkenninga og tilnefninga. Fyrirtækið hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð og er virkur meðlimur í FESTU, miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Kosmos & Kaos hefur einnig kappkostað að bjóða starfsfólki sínu upp á gott starfsumhverfi og krefjandi verkefni og hefur í því skyni mótað sérstaka hamingjustefnu fyrirtækisins.

Starfsmenn Kosmos & Kaos eru nú 12 talsins en fyrirtækið var stofnað fyrir fjórum árum og hefur á því tímabili hannað og forritað vefi fyrir mörg stærstu og framsæknustu fyrirtæki landsins,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×