Viðskipti innlent

Skoða tollfrjálsan innflutningskvóta á lífræna mjólk

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Það er Mjólkurbúið Kú sem hefur óskað eftir að fá að flytja inn lífræna mjólk tollfrjálst. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, til vinstri og Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú, er til hægri.
Það er Mjólkurbúið Kú sem hefur óskað eftir að fá að flytja inn lífræna mjólk tollfrjálst. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, til vinstri og Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú, er til hægri. Vísir / Stefán
Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara vinna nú að tillögu til landbúnaðarráðherra um að gefinn verði út opinn og tollfrjáls innflutningskvóti á lífræna mjólk. Tillagan er tilkomin vegna beiðni Mjólkurbúsins Kú vegna skorts á lífrænni mjólk hér á landi.

Félag atvinnurekenda hefur fengið drög að tillögunni til umsagnar en greint er frá málinu á vefsíðu þess. Þar fagnar félagið því hvað viðbrögð nefndarinnar eru nú jákvæð og skjót en síðast þegar ráðgjafarnefndin úthlutaði innflutningskvóta fyrir lífræna mjólk að beiðni Kú tók það um það bil ár.

„Menn eru vonandi að hysja upp um sig í atvinnuvegaráðuneytinu,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, í tilkynningu á vefnum. „Samkvæmt lögum ber ráðherra að gefa út innflutningskvóta á lægri tollum þegar skortur er á innlendri landbúnaðarvöru og þessi vinnubrögð eru í samræmi við það.“

„Umræða undanfarinna daga og vikna um stíft kerfi sem hyglir innlendri framleiðslu á kostnað innflutnings hefur augljóslega borið árangur,“ segir hann og bætir við að viðbrögð nefndarinnar nú setji mikilvægt fordæmi um innflutning annarra landbúnaðarafurða þar sem innlend framleiðsla er engin eða annar ekki eftirspurn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×