Viðskipti innlent

Þýskur banki samþykkir lán til kísilvers á Bakka

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þýska félagið PCC hefur tilkynnt ráðamönnum Norðurþings að meginfjármögnun kísilvers við Húsavík sé tryggð. Stefnt er að því að 80 milljarða króna framkvæmdir í Þingeyjarsýslum fari á fullt í vetur. 

Raunar eru Þingeyingar farnir að sjá forsmekkinn að því sem koma skal með jarðvegsvinnu sem stendur yfir á Þeistareykjum vegna jarðvarmavirkjunar sem Landsvirkjun hyggst reisa. Það hefur hins vegar verið beðið eftir því að PCC lyki fjármögnun verksmiðjunnar.

Hún virðist nú tryggð því samkvæmt uppýsingum Snæbjörns Sigurðarsonar, verkefnisstjóra Norðurþings, hefur PCC tilkynnt sveitarfélaginu að aðallánveitandinn, þýski sparisjóðabankinn KfW, hafi samþykkt lánveitinguna. Það gerðist eftir að þýska ríkið féllst í síðustu viku á að veita bakábyrgð. 



Áætlað er að um það bil tveir þriðju hlutar lánsfjármögnunar komi frá þýska bankanum og að um þriðjungur komi frá íslenskum lífeyrissjóðum. Þess er  vænst að gengið verði frá samningum við lífeyrissjóðina í kringum næstu mánaðamót og að í framhaldinu verði öllum fyrirvörum í samningum vegna verkefnisins aflétt, þar á meðal í orkusamningi PCC og Landsvirkjunar.

PCC stefnir að endanlegri ákvörðun í desember og segir bæjarstjóri Norðurþings, Kristján Þór Magnússon, stefnt að því að framkvæmdir fari af stað strax í vetur. Fyrir Þingeyjarsýslur er þetta risadæmi, fjárfesting upp á 80 milljarða króna, í verksmiðju, orkumannvirkjum og innviðum, og kallar á allt að 700 manns í vinnu við uppbyggingu, þegar mest verður á næstu þremur árum.


Tengdar fréttir

Von á ákvörðun um 400 ný störf

Samningar vegna sólarkísilverksmiðju á Grundartanga eru á lokastigi og er nú áformað að framkvæmdir hefjist í október í haust.

Undirbúa hundrað megavatta virkjun

Um fimmtíu manns starfa nú við undirbúningsframkvæmdir á Þeistareykum í Þingeyjarsýslum vegna kísilvers sem ef til vill verður reist á Húsavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×