Viðskipti innlent

Von á ákvörðun um 400 ný störf

Kristján Már Unnarsson skrifar
Samningar vegna sólarkísilverksmiðju á Grundartanga eru á lokastigi og er nú áformað að framkvæmdir hefjist í október í haust. Þetta yrði stærsta einstaka atvinnusköpun hérlendis eftir hrun, með allt að 400 ný varanleg störf. 

Af þeim fjárfestingarverkefnum sem nú eru farvatninu er ekkert stærra en áformin um sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Þessi verksmiðja verður frábrugðin hinum kísilverunum, sem rætt er um, að því leyti að hún tekur við kísilmálmi og hreinvinnur hann til nota í sólarflögur og þarf mikinn fjölda starfsmanna.

„360-400 vel launuð störf”, sagði stjórnarformaður Silicor Materials, John Correnti, á Grundartanga þann 28. maí síðastliðinn þegar hann undirritaði samningsskilmála vegna lóðar við Faxaflóahafnir. Slíkur fjöldi varanlegra starfa hefur ekki orðið til í einum vettvangi hérlendis frá því álver Alcoa tók til starfa á Reyðarfirði fyrir sjö árum.

Þegar samningsskilmálar vegna lóðarinnar voru undirritaðir á Grundartanga fyrir rúmum mánuði kom það á óvart hversu langt undirbúningur væri kominn, en þar kvaðst John Correnti vonast til þess að vélskóflur byrjuðu að grafa síðar á árinu.

Terry Jester, forstjóri Silicor Materials, og Gísli Gíslason, hafnastjóri Faxaflóahafna, á lóðinni á Katanesi við Grundartanga í lok maí sl.Stöð 2/Björn Sigurðsson.
Og nú bendir flest til þess að þetta gangi eftir, og að vinnuvélarnar byrji að moka á lóðinni í október í haust. Samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2 er að vænta yfirlýsingar frá ráðamönnum Silicor fyrir miðjan þennan mánuð þess efnis að helstu lykilsamningar um verkefnið séu að mestu frágengnir, þar á meðal um kaup á 85 megavöttum raforku og um lántöku vegna 80 milljarða króna fjárfestingar, en áformað er að framleiðslan hefjist eftir tvö og hálft ár. 

Lokaorð stjórnarformannsins Johns Correnti við undirritunina í síðasta mánuði voru þessi: 

„Ég vil gefur ykkur eitt loforð enn. Þegar við komum hingað verðum við gott fyrirtæki og látum okkur annt um samfélagið og hugum að umhverfinu.”


Tengdar fréttir

Tvö kísilver að komast í höfn

Vonir standa til að smíði kísilvera í Helguvík og á Húsavík verði staðfest innan tveggja vikna með því að öllum fyrirvörum vegna samninga verði aflétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×