Viðskipti innlent

Dúkkulísuvefur mokar inn milljónum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Vefurinn var opnaður fyrir 16 árum en afkoman hefur aldrei verið betri en árið 2010 þegar hún var jákvæð um 111 milljónir.
Vefurinn var opnaður fyrir 16 árum en afkoman hefur aldrei verið betri en árið 2010 þegar hún var jákvæð um 111 milljónir. Mynd/Skjáskot
Hagnaður af rekstri dúkkulísuvefsins dressupgames.com nam tæpum 48 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt nýbirtum ársreikningi.

Félagið er alfarið í eigu Ingu Maríu Guðmundsdóttur bókasafnfræðings á Ísafirði. Það var stofnað 2007 en síðan var opnuð árið 1998. Á henni má finna tengla inn á fjölmarga tölvuleiki þar sem dúkkulísur af öllum stærðum og gerðum eru klæddar í föt og skreyttar með ýmsum fylgihlutum. Vefsíðan fær milljónir innlita í hverjum mánuði en tekjurnar koma inn í gegnum auglýsingasamning við Google.

Eigið fé félagsins nam 194 milljónum króna í árslok 2013. Eignirnar námu þá rúmum 208 milljónum og skuldirnar tæpum 15 milljónum. Rekstur Dress up games hefur skilað hagnaði frá því félagið var stofnað og það hefur á undanförnum árum verið á meðal arðbærustu fyrirtækja á Vestfjörðum. Afkoman hefur þó aldrei verið betri en árið 2010 þegar hún var jákvæð um 111 milljónir króna.

Í ársreikningi félagsins kemur fram að arðgreiðslur hafi numið 40 milljónum króna í fyrra og 38 milljónum árið 2012.

Inga María Guðmundsdóttir vildi ekki tjá sig um rekstur vefsins þegar fréttastofa leitaði eftir því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×