Innlent

Háskóli Íslands kominn langt yfir sársaukamörk

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Fjárframlög til Háskóla Íslands hafa verið skorin niður jafnt og þétt undanfarin ár þrátt fyrir að nemendafjöldi hafi stóraukist í kjölfar efnahagshrunsins. Kristín Ingólfsdóttir, rektor skólans, segir skólann hafa þurft að glíma við niðurskurð undanfarin sex ár og segir það sama upp á teningnum fyrir það næsta – áfram þurfi að hagræða. Hún segir þó að ýmislegt jákvætt megi finna í fjárlagafrumvarpi næsta árs, til að mynda endurskoðun á reikniflokkum.

„Hins vegar er þrennt sem við gerum mjög alvarlegar athugasemdir við. Í fyrsta lagi er það svo að við höfum kennt mörghundruð nemendum á undanförnum árum án þess að fá greitt fyrir og þessi fjöldi eykst enn með fjárlagafrumvarpinu. Þannig að ef að þetta verður ekki leiðrétt þá værum við þá næsta ári að kenna fimmhundruð nemendum að minnska kosti sem ekki væri fjárframlag fyrir,” segir Kristín.

Þá nefnir Kristín að skrásetningargjald við skólann hafi verið hækkað úr 60.000 krónum í 75.000 í fyrra. Þessi hækkun nemi um 180 milljónum króna, einungis 40 milljónir fara til Háskólans, en 140 í ríkissjóð.

Í nýútkominni skýrslu OECD kemur fram að framlög til háskólastigsins á Íslandi fari enn lækkandi í samanburði við meðaltal OECD ríkja. Háskóli Íslands þurfi um 6 milljörðum króna hærri heildartekjur svo OECD meðaltali væri náð og 11 milljarða króna vantar í samanburði við Norðurlöndin. Kristín vonast eftir skilningi stjórnvalda á stöðunni.

Hvaða áhrif hefur þessi fjárvöntun á starfsemi skólans?

„Hún er farin að svíða sárt. Ég nefni eitt dæmi, við erum með jarðvísindafólk sem er að leggja sig í lífshættu og það fær hvíld við mjög óviðunandi aðstæður og farartækin eru biluð. Ég nefni þetta sem eitt dæmi. Við erum komin langt yfir mörk,“ segir Kristín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×