Innlent

Allt að 75 prósent landsmanna tekur þátt í peningaspilun

Jakob Bjarnar skrifar
Vísir/AFP
Spilahegðun Íslendinga á netinu er í litlu frábrugðin því sem gerist og gengur meðal annarra þjóða. Ungir karlmenn skera sig úr og eru langduglegastir að spila póker og fjárhættuspil á netinu.

Á mánudaginn verður haldin málstofa um netspilahegðun Íslendinga þar sem Dr. Daníel Ólason, Háskóla Íslands, og Dr. Heather Grey, Harvard University, kynna rannsóknarniðurstöður og ræða kosti og galla peningaspila á Internetinu. Heimsókn Grey, sem er rannsakandi við Harvard og hefur verið að rannsaka spilahegðun á netinu, stendur fyrir dyrum og var ákveðið að slá saman og ræða þær rannsóknir og svo rannsóknir Daníels, sem hefur skoðað áhrif efnahagshrunsins á peningaspilun. Þau munu kynna niðurstöður sinna rannsókna.

Þátttaka almennings í fjárhættuspilum eykst

„Það hefur aukist mjög þátttaka almennings í peningaspilun á netinu og ýmislegt sem bendir til að það muni færast frekar í aukana en hitt. Og menn eru að velta því fyrir sér hvað það mun þýða. Nú er aðgengi betra en hefur verið og peningaspil á netinu er hraðara í úrvinnslu en sé spilað með hefðbundnum hætti. Og menn velta fyrir sér hvort það muni leiða til aukins vanda eða ekki? Þetta eru þær spurningar sem ég vonast til að Heather muni geta hjálpað okkur að velta upp og hugsanlega svara,“ segir Dr. Daníel.

Fer fjölgandi sem leita á erlendar spilasíður

Faraldsfræðilegar rannsóknir benda til þess að 15 prósent Íslendinga hafa lagt undir fé til að spila á netinu. Daníel segir flesta þó stunda getraunir og lottó. Hins vegar eru tiltölulega fáir sem spila á erlendum netsíðum en þeim fer fjölgandi.

„Þegar ég skoða mín gögn þá sé ég að þeir sem eiga í vanda vegna peningaspila þeir eru líklegri til að spila á erlendum netsíðum, eða spilasíðum, og þá helst internetpóker. Það er ekki leikur sem innlendir aðilar bjóða uppá.“

Daníel segir eldri gögn sýna að margföldun hefur orðið á fjölda þeirra unglinga sem hafa spilað peningaspil á netinu.

Er netspilamennska ánetjandi eða sækja spilasjúkir í netspilamennsku?

„Áhyggjur manna af þessu snúast kannski að því, þegar menn skoða hlutfall þeirra sem eiga við vanda að stríða eftir því hvort þeir spila á netinu eða ekki,“ heldur Daníel áfram.

„Þá sjáum við að hlutfallið er hærra meðal þeirra sem spila líka á netinu. Þá getur maður velt því fyrir sér hvort það sé eðli netspilamennsku sem er meira ánetjandi eða eru það þeir sem eiga við vanda að stríða sem eru að færa sig meira á netið. Og við getum í rauninni ekki skorið úr um hvort skýringin sé líklegri.“

Daníel segir Íslendinga ekki ginnkeyptari fyrir peningaspilun en aðra.

„Nei. Peningaspilun er afskaplega áþekk hér og ef við berum okkur saman við aðrar Evrópuþjóðir. Það eru svona 70 til 75 prósent landsmanna sem tekur þátt í peningaspilun að einhverju marki. Hefur spilað minnsta kosti einu sinni á síðustu 12 mánuðum. Það er afskaplega áþekkt og þekkist erlendis. Og þegar við skoðum vandann þá skerum við okkur ekki úr að neinu leyti.“

Karlmenn miklu sólgnari í fjárhættuspil

En, sé þetta greint út frá kynjum; eru karlmenn fíknari í þetta en konur?

„Já, þegar við skoðum þetta eftir kyni þá sjáum við að karlar spila almennt meira peningaspil, þeir spila sérstaklega peningaspil þar sem þeir halda að þeir hafi einhverja stjórn eða geti spáð fyrir um niðurstöðu leiks. Eins og til dæmis að tippa á fótbolta eða spila póker. Þeir spila almennt meira og með netspilun á erlendum netsíðum, þá eru þetta fyrst og fremst karlar, ungir karlar sem sækjast eftir því að spila þarna. Þegar við skoðum spilavanda sjáum við það líka að þeir sem eiga við spilavanda að stríða á Íslandi eru í algjörum meirihluta karlmenn. Afgerandi,“ segir Dr. Daníel Ólason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×