Innlent

NATO-ríki í austur Evrópu finna til óöryggis

Heimir Már Pétursson skrifar
Leiðtogi aðskilnaðarsinna í Úkraínu segir að þrátt fyrir vopnahlé sem samið var um í dag, verði áfram barist gegn aðskilnaði austurhluta landsins frá Úkraínu. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir bandalagsríki NATO í austri finna til óöryggis vegna hernaðartilburða Rússa í Úkraínu.

Tilkynnt var um vopnahléð í Minsk höfuðborg Hvíta-Rússlands í dag án þess að upplýst væri um önnur ákvæði samningsins en að stríðandi fylkingar áttu að leggja niður vopn klukkan þrjú í dag. En sjálfskipaður forsætisráðherra Luhansk í austuhluta Úkraínu sagði við kynningu samkomulagsins að það þýddi ekki að hætt yrði að berjast fyrir aðskilnaði austurhlutans frá Úkraínu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tilkynnti á leiðtogafundi NATO í Wales í dag  að íslensk stjórnvöld ætli að efla þátttöku sína og framlög í þágu eigin varna og Atlantshafsbandalagsins frá og með árinu 2016.

„Við munum þurfa að leggja meira til uppbyggingarstarfs, m.a. í Úkraínu vegna ástandsins þar. En líka í þau borgaralegu verkefni sem við sérhæfum okkur í svo við getum talist vera virkir þátttakendur í að takast á við þau erfiðu verkefni sem framundan eru,“ segir Sigmundur Davíð.

Forsætisráðherra segir vopnahléssamkomulagið ekki breyta þeirri ætlan NATO að byggja upp stöðu sína í austur Evrópu.

„Þó ekki væri nema til að þjóðir austur Evrópu telji sig öruggari en nú er og það fór ekkert á milli mála í kringum þennan fund að fulltrúar Austur-Evrópuþjóðanna og jafnvel mið-Evrópu landa líka, upplifa sig engan veginn örugga við þessar aðstæður,“ segir forsætisráðherra.

Sigmundur Davíð segir stjórnvöld leggja mikla áherslu á að efla björgunar- og leitaraðstöðu á Íslandi. Þá muni stjórnvöld auka stuðning við loftrýmisgæslu hér á landi, þ.m.t. við þyrlubjörgunarþjónustu.

„Svoleiðis að við gerum ráð fyrir að halda áfram þeirri undirbúningsvinnu. Þó að helst viljum við að sjálfsögðu fá önnur ríki með okkur í uppbyggingu sem verður til þess fallin að þjónusta stóran hluta norður Atlantshafsins,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×