Innlent

Áhyggjur vegna íbúafækkunar á Stokkseyri

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir
Íbúar á Stokkseyri hafa lýst yfir áhyggjum vegna mikilla fólksflutninga frá Stokkseyri og Eyrarbakka. Lóðaverð þar er töluvert lægra en á Selfossi og telja þeir fólk flytja á Selfoss til að fá betri þjónustu. Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar tók undir þessar áhyggjur.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar, var gestur á síðasta fundi hverfisráðs Stokkseyrar. Hún sagði að íbúafækkun á þessum stöðum væri áhyggjuefni en benti á að íbúum á Eyrarbakka hafi fækkað undanfarið með þeim afleiðingum að Stokkseyringar væru nú orðnir fleiri en Eyrbekkingar. Ásta sagði jafnframt að rætt hafi verið um það að takmarkanir á að byggja megi við gömlu húsin geri það að verkum að þau henti ekki til búsetu og séu því í auknum mæli notuð sem sumarhús. Ef til vill mætti hverfa frá því að ekki megi breyta húsum, þó þannig að haldið verði í upphaflegan byggingarstíl. 

Á fundinum kom jafnframt fram að fólk flytji frá Stokkseyri til Selfoss til að fá betri þjónustu. „En þar sem þetta er sama sveitarfélagið ætti að vera hægt að bjóða upp á sömu þjónustu á Eyrarbakka og Stokkseyri eins og á Selfossi,“ segir í fundargerð hverfisráðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×