Innlent

Rögnvaldur Þorleifsson látinn

Rögnvaldur Þorleifsson.
Rögnvaldur Þorleifsson.
Rögnvaldur Þorleifsson skurðlæknir andaðist á Borgarspítalanum í Fossvogi þann 16. júlí, 84 ára gamall. Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju föstudaginn næstkomandi klukkan 13:00.

Rögnvaldur fæddist 30. janúar 1930 í Kjarnholtum í Biskupstungum. Foreldrar hans voru Þorleifur Bergsson, búfræðingur og bóndi, og Dóróþea Gísladóttir, kennari og húsfreyja, á Hofsá í Svarfaðardal.

Rögnvaldur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1949 og læknanámi frá Háskóla Íslands 1956. Hann fékk sérfræðingsleyfi í handlækningum 1962 og sérfræðingsleyfi í bæklunarskurðlækningum í Svíþjóð 1982 og á Íslandi 1989. Hann stundaði framhaldsnám í Gautaborg í Svíþjóð og átti styttri námsdvalir í Bandaríkjunum, Kína, Frakklandi og Kanada.

Rögnvaldur starfaði á ýmsum sjúkrahúsum í Svíþjóð á námsárunum. Hér heima var hann m.a. yfirlæknir á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 1965-1968, sérfræðingur á slysa- og bæklunarlækningadeild Borgarspítalans 1968-1995. Rögnvaldur framkvæmd fyrstu handarágræðslu á Íslandi í september 1981 og gerði aðgerðir á slæmum mjaðmargrindarbrotum frá 1987. Hann rak eigin lækningastofu í Reykjavík frá 1995.

Rögnvaldur var ráðgjafi heilbrigðisyfirvalda og landlæknisembættisins m.a. við endurskoðun reglugerðar um lyf og læknisáhöld í íslenskum skipum. Rögnvaldur sat í nefnd Læknafélags Íslands sem gerði tillögur um tækjabúnað í einmenningslæknishéruðum. Hann kenndi einnig við læknadeild Háskóla Íslands, m.a. líffærameinafræði, slysaskurðlækningar, líffærafræði og skurðlækningar. Þá skrifaði Rögnvaldur greinar í innlend og erlend læknatímarit.

Rögnvaldur kvæntist árið 1955 Ástríði Karlsdóttur, hjúkrunarfræðingi, (f. 1931, d. 2003). Þau eignuðust fimm börn: Karl, Leif, Dóru, Berg Þór og Hrafn Goða. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×