Innlent

Væri gott fyrir Framsókn að eiga sitt Fréttablað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigrún Magnúsdóttir.
Sigrún Magnúsdóttir. Vísir/Pjetur
Fylgi Framsóknarflokksins á landvísu er 12,7 prósent samkvæmt nýjum Þjóðapúlsi Gallup. Minnkar fylgi flokksins um tvö prósentustig á milli mánaða. Fylgi Pírata minnkar sömuleiðis um tæplega tvö prósentustig og er nú 8,1 prósent.

Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir í samtali við RÚV að sér fróðari menn verði að útskýra þann mun sem oft vill verða á fylgi flokksins í könnunum og kosningum. Hún hafi átt von á að fylgið myndi aukast í kjölfar þess að skuldaniðurfellingarnar væru komnar til framkvæmda. Sannfærð sé hún um að árangurinn muni sjást í lok kjörtímabilsins.

Þá bætir Sigrún við að hún sakni fjölmiðils sem skilji flokkinn sinn og stefnu hans.

„Mér finnst alltaf vera mjög tortryggt allt sem Framsóknarmenn leggja til og tala um og snúið út úr því á alla enda og kanta. Við vitum náttúrlega að Fréttablaðið er mest fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Það væri gott fyrir okkur Framsóknarmenn að eiga okkar Fréttablað. Ég bara svona nefni þetta,“ sagði Sigrún í samtali við RÚV.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins með 25,3 prósenta fylgi, Samfylkingin hefur 18,2 prósent, Björt framtíð 15,7 prósent, Vinstri hreyfingin grænt framboð 12,8 prósent og aðrir flokkar minna. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 40 prósent.

Könnunin var framkvæmd 28. og 29. júní. Heildarúrtaksstærð var 6.985 og þátttökuhlutfall var 58,8 prósent. Vikmörk við fylgni flokka eru 0,9-1,5 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×