Viðskipti innlent

Fagna grundvallabreytingu stjórnvalda

Samúel Karl Ólason skrifar
Finnur Árnason er forstjóri Haga.
Finnur Árnason er forstjóri Haga. Vísir/Valgarður
Hagar fagna grundavallarbreytingu á stefnu stjórnvalda. Í tilkynningu frá fyrirtækinu er vísað í orð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þess efnis að framundan væri veruleg breyting á stefnu stjórnvalda í málum sem snúa að viðskiptafrelsi með sjálfsagðar neysluvörur.

Breytingarnar felist í auknu viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur, áfengi, lyf og koma einnig að merkingu á dagvöru.

„Allt eru þetta baráttumál, sem Hagar hafa lagt ríka áherslu á.“

Líkt og greint hefur verið frá á Vísi hefur smásölurisinn Costco hug á að opna verslun hér á landi. Skipulagsráð Reykjavíkur hefur þegar samþykkt að Korputorg ehf. megi gera tillögu að deiliskipulagi fyrir Costco. Þá vill bandaríski risinn fá að flytja inn ferskt kjöt og selja bæði lyf og áfengi í verslunum sínum líkt og annars staðar þar sem fyrirtækið starfar.

Hagar standa nú í málaferlum við ríkið um framkvæmd alþjóðasamninga og framkvæmd íslenskra laga.

„Ríkið skilaði t.a.m. greinargerð í héraðsdómi Reykjavíkur í gær, þar sem stjórnvöld vilja ekki heimila innflutning á fersku kjöti og brjóta þar með alþjóðasamninga að mati Haga.“

Þykir forsvarsmönnum sérstakt að yfirlýsing ráðherra birtist sama dag og greinargerðin.

„Öll framangreind baráttumál Haga munu stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri verslana, auknu vöruvali og þar með lægra vöruverði til viðskiptavina. Verslun á landsbyggðinni mun hafa sterkari grunn og þjónusta og vöruval þar mun batna.“

„Það er því fagnaðarefni að öll framangreind mál séu loks komin á dagskrá hjá stjórnvöldum. Gera verður ráð fyrir að snörp tímaáætlun liggi fyrir á næstu dögum.“

Tilkynninguna má sjá alla hér að neðan:

Hagar fagna grundvallarbreytingu á stefnu stjórnvalda

Í gær lýsti Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra því yfir að framundan væri veruleg breyting á stefnu stjórnvalda í málum sem snúa að viðskiptafrelsi með sjálfsagðar neysluvörur.

Breytingarnar felast í auknu viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur, áfengi, lyf og þær snúa einnig að merkingum á dagvöru. Allt eru þetta baráttumál, sem Hagar hafa lagt ríka áherslu á.

Hagar hafa um árabil barist fyrir auknu frelsi í innflutningi á landbúnaðarvörum og standa þessa stundina í málaferlum við ríkið um framkvæmd alþjóðasamninga og framkvæmd íslenskra laga. Ríkið skilaði t.a.m. greinargerð í héraðsdómi Reykjavíkur í gær, þar sem stjórnvöld vilja ekki heimila innflutning á fersku kjöti og brjóta þar með alþjóðasamninga að mati Haga. Tímasetning greinagerðarinnar er sérstök í meira lagi, þegar haft er í huga að yfirlýsing ráðherra birtist samdægurs.

Öll framangreind baráttumál Haga munu stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri verslana, auknu vöruvali og þar með lægra vöruverði til viðskiptavina. Verslun á landsbyggðinni mun hafa sterkari grunn og þjónusta og vöruval þar mun batna.

Það er því fagnaðarefni að öll framangreind mál séu loks komin á dagskrá hjá stjórnvöldum. Gera verður ráð fyrir að snörp tímaáætlun liggi fyrir á næstu dögum.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×