Viðskipti innlent

106 ára saga Sparisjóðs Bolungarvíkur á enda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sparisjóður Bolungarvíkur.
Sparisjóður Bolungarvíkur. Vísir/Pjetur
Kosið verður um sameiningu Sparisjóðs Bolungarvíkur og Sparisjóðs Norðurlands á aðalfundi fyrrnefnda sjóðsins á föstudag. Bæjarins besta greinir frá.

Sparisjóður Bolungarvíkur varð tæknilega gjaldþrota í kjölfar hrunsins haustið 2008 og fer Bankasýsla ríkisins með eignarhlut ríkisins í sjóðnum. Ríkið á 90,9 prósent af stofnfé sjóðsins og sömuleiðis 80,9 prósent af stofnfé Sparisjóðs Norðurlands.

Aðalfundur Sparisjóðs Norðurlands fer fram á mánudag líkt og stofnfjárhluthafafundur í hinum sameinaða sparisjóði. Hann mun bera nafnið Sparisjóður Norðurlands.

Sparisjóður Bolungarvíkur var stofnaður árið 1908 og var saga sjóðsins gefin út sumarið 2009. Margar athugasemdir voru gerðar við starfsemi sjóðsins á árunum fyrir hrun í Rannsóknarskýrslu sparisjóðanna. Voru lánveitingar til flatbökustaða á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega gagnrýndar

Ásgeir Sólbergsson sparisjóðsstjóri sagði upp störfum í apríl en í skýrslunni kom fram að hann hefði farið út fyrir sínar heimildir í starfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×