Skoðun

Samráð og dreifing valds

Vilborg Þ. Guðbjartsdóttir og Svanberg J. Eyþórsson og Anna Lára Steindal skrifa
Við viljum að stjórnmál snúist meira um þjónustu við fólk en minna um stjórnun, valdabaráttu og flokkadrætti. Við teljum að þeir sem fólk velur í kosningum til að fara með vald fyrir sig eigi að hlusta meira á skoðanir fólks, vilja og þarfir en reyna minna að sannfæra það um að flokkur þeirra hafi ávallt rétt fyrir sér en allir aðrir rangt.

Okkur finnst mikilvægt að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir að mjög margt fólk hefur lítinn eða engan áhuga á stjórnmálaflokkum en hefur mikinn vilja og fullan rétt til að taka þátt í að móta samfélagið.

Við teljum að samráð sé rétta leiðin við að taka góðar ákvarðanir og að það sé merki um styrkleika í stjórnmálum að beita þeirri aðferð en það sé vond aðferð og veikleikamerki að beita pólitísku valdi til að ná öllu sínu fram og virða skoðanir annarra lítils. Við teljum að stjórnmálamenn eigi að beita valdi sínu af auðmýkt. Við teljum að meirihlutinn eigi að sýna minnihlutahópum virðingu, hlusta á skoðanir þeirra og taka tillit til hagsmuna þeirra.

Okkur finnst mikilvægt að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir að mjög margt fólk hefur lítinn eða engan áhuga á stjórnmálaflokkum en hefur mikinn vilja og fullan rétt til að taka þátt í að móta samfélagið. Okkur finnst bráðnauðsynlegt að það fólk fái tækifæri til að hafa áhrif og nýta áhuga sinn og hæfileika í þágu samfélagsins, án þess að þurfa að játast einhverjum stjórnmálaflokki og viljum að samfélagið njóti þessara hæfileika. Við viljum því að þess sé vel gætt þegar valið er fólk til að vinna ópólitísk verkefni í þágu samfélagsins, svo sem fulltrúa í ýmsa starfshópa og nefndir eða til setu í stjórnum fyrirtækja og félaga fyrir hönd sveitarfélags, sé mest áhersla lögð á að finna einstaklinga sem búa yfir mikilli og viðeigandi þekkingu og hæfni á þeim málum sem þar eru til meðferðar og til að gæta hagsmuna alls samfélagsins en minna lagt upp úr þátttöku þeirra í starfi stjórnmálaflokka.

Við viljum ástunda stjórnmál sem einkennast af samráði og valddreifingu. Þess vegna bjóðum við fram þjónustu okkar og þess vegna bjóðum við okkur fram fyrir Bjarta framtíð.




Skoðun

Sjá meira


×