Skoðun

Orðum fylgir ábyrgð

Sabine Leskopf skrifar
Undanfarna daga hefur öfgafull umræða átt sér stað sem oddviti Framsóknarinnar kveikti  með orðum sínum. Orðið rasismi hefur fallið oftar en einu sinni, en það á ekki við hér, því umræðan snýst ekki um ákveðinn kynþátt heldur ótta við hið ókunna, sem er ein af frumhvötum mannsins. Við erum hrædd við það sem við þekkjum ekki eða höfum mjög óljósar hugmyndir um. Þessa hvöt hyggst Framsóknarflokkurinn nú nýta sér í örvæntingu sinni og kjördagurinn leiðir í ljós hvort fólk lætur afvegaleiða sig á þennan hátt. En það er eitt sem kemur ofar í hugann en atkvæðin á laugardaginn og það eru afleiðingar þessarar umræðu.

Hvað þýðir það að fólk talar um málefni múslíma og þar af leiðandi málefni innflytjenda almennt á þennan hátt í kaffistofum landsins, við kvöldmatarborðið fyrir framan börnin sín? Hvaða áhrif hefur þetta á börn sem heyra foreldra sína tala svona, fullir af áhyggjum og ótta? Hvernig taka þessi börn svo á móti börnum af erlendum uppruna í skólanum næsta dag? Rannsóknir hér á landi hafa sýnt að börn af erlendum uppruna verða nú þegar fyrir einelti í meiri mæli en önnur börn. Er oddviti Framsóknarflokksins virkilega tilbúinn að kaupa sér atkvæði á kostnað þeirra?

Þann 10. maí var haldið upp á Fjölmenningardag Reykjavíkurborgar þar sem við fögnuðum fjölbreytileikanum, þetta er borg eins og við viljum hafa hana, borg sem er litrík og skemmtileg, sem ber virðingu fyrir öllu því jákvæða sem fólk flytur með sér alls staðar að úr heiminum. En einn dagur á ári er ekki nóg. Samfylkingin vill gera alla daga ársins að fjölmenningardögum og bjóða öllum börnum samfélag sem skiptir þeim ekki í fyrsta og annan flokk.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×