Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Stjarnan - KR 89-90 | KR komið í úrslit

Kristinn Páll Teitsson í Ásgarði skrifar
Darri Hilmarsson fagnar í kvöld.
Darri Hilmarsson fagnar í kvöld. vísir/valli
KR tryggði sæti sitt í úrslitum Dominos-deild karla með naumum sigri á Stjörnunni í háspennuleik í Ásgarði. Þrátt fyrir að hafa klúðrað tækifærum á vítalínunni til að gera út um leikinn var það sóknarfrákast KR-inga þegar 3,2 sekúndur voru eftir sem gerði út um leikinn.

Stjarnan vann þriðja leik liðanna nokkuð örugglega í DHL höllinni þegar ljóst var að KR-ingar þurftu aðeins einn sigurleik í viðbót.

Líkt og í fyrri leik liðanna í Ásgarði byrjuðu heimamenn betur og náðu forskotinu á upphafssekúndum leiksins í stöðunni 11-3. Við það tóku gestirnir við sér en í þetta skiptið stóðust Stjörnumenn áhlaup KR-inga og var jafnt á liðum eftir fyrsta leikhlutann 23-23.

Í öðrum leikhluta voru KR-ingar áræðnari og náðu að byggja upp smá forskot fyrir lok hálfleiksins. Þrátt fyrir að heimamenn væru að hitta 60% fyrir utan þriggja stiga línuna tóku KR-ingar átta stiga forskot inn í hálfleikinn, 48-40.  

Ingvaldur Magni Hafsteinsson kom sterkur inn af bekknum í fyrri hálfleik í stað Demonds Watts sem var slakur í fyrri hálfleik. Með Ingvaldi kom gríðarlega mikil orka í varnarleik KR-inga og voru bestu kaflar Vesturbæinga í fyrri hálfleik þegar hann var inná. Í liði Stjörnumanna var það Matthew Hairston sem fór fyrir liði sínu með 14 stig ásamt því að taka 11 fráköst.

Í þriðja leikhluta náðu Stjörnumenn að minnka muninn niður í fjögur stig og var á hreinu að við myndum fá spennandi loka sprett. Þakið virtist ætla að rifna af húsinu í stúku heimamanna þegar Sigurður Dagur Sturluson setti niður þrist sem minnkaði muninn í tvö stig þegar leikhlutinn var ný byrjaður.

Allan fjórða leikhluta voru liðin að skiptast á að skora stig og varð munurinn mest fimm stig þegar tvær mínútur voru eftir á klukkunni. Þá tóku við æsilegar lokasekúndur þar sem Brynjar Þór Björnsson virtist hafa gert út um leikinn þegar hann kom muninum í 4 stig þegar 10,6 sekúndur voru eftir á klukkunni. Matthew Hairston var hinsvegar ekki á þeim buxunum og setti niður þrist lengst utan af velli þegar fimm sekúndur voru eftir.

Martin Hermannsson fór á vítalínuna en klúðraði tækifærinu að koma KR-ingum aftur í þriggja stiga forskot. Það var hinsvegar Martin sem reif niður sóknarfrákastið og spilaði út klukkuna sem tryggði sæti gestanna í úrslitum.

Ótrúlegur lokasprettur og það verður að hrósa Stjörnumönnum sem gáfust ekki upp og voru grátlega nálægt því að komast í framlengingu. Í liði þeirra var það títtnefndur Hairston sem var atkvæðamestur með 30 stig og 18 fráköst en Marvin Valdimarsson átti einnig stórfínan leik með 19 stig.

KR-ingar geta hinsvegar verið sáttir með að klára leikinn og einvígið þótt að Demond Watt hafi einfaldlega verið áhorfandi í dag. Martin fór fyrir liði KR með 23 stig en Brynjar Þór og Darri Hilmarsson settu 15 stig hvor.

Stjarnan - KR 89-90 (23-23, 17-25, 23-19, 26-23)

Stjarnan: Matthew James Hairston 30/18 fráköst/3 varin skot, Marvin Valdimarsson 19/5 fráköst, Fannar Freyr Helgason 12/7 fráköst, Justin Shouse 11/8 stoðsendingar, Dagur Kár Jónsson 10, Jón Sverrisson 4, Sigurður Dagur Sturluson 3.

KR: Martin Hermannsson 23/5 fráköst/5 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 15/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 15, Pavel Ermolinskij 13/9 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 10/3 varin skot, Helgi Már Magnússon 8/4 fráköst/6 stoðsendingar, Demond Watt Jr. 6/8 fráköst.





Finnur: Magni var eins og löggan á Lækjartorgi á morgnanna
„Þetta var frábær sigur á hörku góðu liði í hörku góðri stemmingu, hvar getur maður verið annarstaðar en í skýjunum," sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR sáttur eftir leik.

„Það virtist þurfa að tapa einum leik til að kveikja í okkar stuðningsmönnum og það var gríðarlega gaman að sjá svona marga komna úr Vesturbænum. Miðjan er mætt á ný og það er frábært fyrir framhaldið."

KR-ingar lentu annan leikinn í röð í því í Ásgarði að lenda undir á upphafsmínútum leiksins.

„Við vorum að fá mörg opin skot sem voru ekki að detta og þeir náðu forskotinu á því. Við vorum of langt frá þeim í byrjun leiks og þeir spiluðu vel og voru að hitta vel en við stigum upp. Þegar við fórum að þétta vörnina hjá okkur og skotin byrjuðu að detta náðum við yfirhöndinni og leiddum leikinn frá því allt til enda."

„Ég var alltaf að vona að við næðum góðri rispu sem við keyrum yfir lið eins og við gerum oft en það gerðist ekki í kvöld. Stjarnan er með gott lið sem er verðugur andstæðingur og þetta var bara frábær undirbúningur fyrir næsta leik. Við eigum helling inni, við getum spilað betur en það var frábært að klára þetta,"

KR-ingar sigruðu þrátt fyrir að Demond Watt Jr., miðherji liðsins hafi haft lítil áhrif mest allan leikinn. Ingvaldur Magni kom sterkur inn af bekknum í hans stað.

„Magni var einfaldlega eins og löggan á Lækjartorgi klukkan sex um morgun, hann var að rusla menn til sama hvar það var. Hann átti frábæra innkomu og ég vissi að hann vildi sýna hvað hann gæti. Hann brúaði þetta bil sem Demond skildi eftir sig,"

Brynjar Þór Björnsson og Martin Hermannsson eru góðar vítaskyttur en klúðruðu þremur vítum af fjórum á lokasekúndum leiksins.

„Ef ég þyrfti velja vítaskyttu væri ég til í að velja ansi marga, ég valdi þá í þetta skiptið og ég treysti þeim fullkomnlega. Það var ágætt að Martin klúðraði seinna skotinu og náði sóknarfrákastinu sem kláraði leikinn," sagði Finnur léttur að lokum.

Teitur: Geng stoltur út í kvöld
„Þetta er hrikalega svekkjandi en að sama skapi er ég stoltur af strákunum að hafa gefið þessu séns. Við komumst ansi langt þrátt fyrir mörg áföll á leiðinni," sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar svekktur eftir leikinn.

„Þeir voru einfaldlega of sterkir fyrir okkur þótt það munaði litlu. Það munar tveimur körfum að við séum búnir að vinna þrjá leiki en ekki þeir,"

Þrátt fyrir að hafa verið undir mest allan leikinn í kvöld börðust lærisveinar Teits allt til lokaflautsins og mátti minnstu muna að þeir hefðu náð að kreista fram framlengingu.

„Það er risastórt hjarta í þessu liði. Það verður auðveldara að vakna í fyrramálið og þú veist að allir lögðu sig fram frekar en að einhver hafi haldið aftur af sér. Við börðumst og gerðum allt sem við gátum en það gekk ekki gegn góðu KR liði sem við skilum hamingjuóskum til og óskum alls hins besta í framhaldinu,"

Leikurinn í kvöld var síðasti leikur Teits með Stjörnuliðið eftir fimm ár.

„Hjartað í liðinu í dag eru sömu mennirnir og voru þegar ég kom og við erum að spila svipað kerfi mest allan tímann. Liðið og deildin á sama tíma hefur dafnað frá því að ég tók við Stjörnunni og það hefur verið gaman að fylgjast með uppbygginguni. Liðið hefur unnið tvö silfur og tvo bikarmeistaratitla og vonandi búið að festa sig í sessi í körfubolta,"

Teitur gengur stoltur maður út úr Ásgarði í kvöld.

„Algjörlega, stoltur og þakklátur fyrir að hafa fengið þetta tækifæri. Allir vinirnir sem maður er búinn að eignast hérna, það situr eftir í manni," sagði Teitur að lokum.

Martin: Hlutirnir gerast þegar ég er í treyju númer 15„Þetta var járn í járn allan leikinn, Stjarnan er með hörku lið og þeir sönnuðu það í dag," sagði Martin Hermannsson, bakvörður KR eftir leikinn.

„Okkur gekk illa að hrista þá af okkur. Hairston setti risa þrist hérna undir lokin sem kemur þeim aftur inn í leikinn nær miðju en þriggja stiga línunni."

„Þetta var einfaldlega körfuboltinn í sinni fegurstu mynd. Brynjar, ein besta vítaskytta landsins klúðrar víti sem gefur þeim möguleikann. En það sem skiptir máli er að við unnum leikinn, hvort það var með einu stigi eða tuttugu skiptir ekki öllu máli,"

Annan leikinn í röð í Ásgarði voru gestirnir lengi af stað og lentu undir á upphafsmínútum leiksins.

„Við byrjuðum illa, það þarf að fínpússa það fyrir næsta leik þótt það hafi gengið vel hingað til. Við komum okkur sem betur fer aftur í gang og sýndum karakter með því að vinna þennan leik,"

Martin fór sjálfur á vítalínunna þegar 3,6 sekúndur voru eftir og klikkaði úr báðum skotum en reif sjálfur niður sóknarfrákastið.

„Ég hélt að fyrra skotið myndi detta, mér leið hrikalega vel með það og ég sá það ofaní. Við skulum segja að ég hafi reynt þetta í seinna til að fá frákastið,"

Martin var mættur aftur í treyju númer 15 og hann var ekkert á þeim buxunum að gefa hana frá sér aftur.

„Ég skuldaði KR-ingum góðan leik, ég var kominn í mitt númer í kvöld þar sem mér líður best og þá gerast hlutirnir," sagði Martin léttur að lokum.



Leiklýsing: Stjarnan - KR

Leik lokið | 89-90 :
ÓTRÚLEGAR lokasekúndur, Martin klúðrar báðum vítaskotunum en KR-ingar ná frákastinu og ná að spila klukkuna út. KR-ingar eru komnir í úrslitakeppnina.

4. Leikhluti | 89-90 :
Allt að verða vitlaust hér, Hairston Jr setur niður langan þrist sem minnkar muninn í eitt stig. Það voru 6.2 sekúndur eftir á klukkunni þegar Brynjar fékk boltann en klukkan fór alls ekki strax af stað áður en brotið var á honum. Dómararnir eru að ræða hvaða tíma eigi að setja á klukkuna áður en leikurinn hefst aftur. Þeir bæta hálfri sekúndu. Athyglisvert.

4. Leikhluti | 84-89 :
Aldur er afstæður, Martin keyrir inn á körfuna og rennir boltanum í netið. ÍÍÍÍskaldur. Hvað gera heimamenn? 19 sekúndur á klukkunni.

4. Leikhluti | 84-87 :
Pavel fær vítaskot en setur aðeins niður eitt. Justin er hinsvegar pottþéttur á línunni. Munurinn þrjú stig og 38 sekúndur eftir á klukkunni.



4. Leikhluti | 82-86 :
Fagmaður! Pavel ekki búinn að hitta vel í dag en þegar það skiptir máli setur hann niður langan þrist. Justin Shouse sækir brot og fer á vítalínuna hinumegin.

4. Leikhluti | 80-83 :
Hairston setur niður tvö víti og munurinn er 3 stig þegar ein mínúta og tuttugu sekúndur eru eftir á klukkunni. Stjörnumenn eru komnir í bónusinn.

4. Leikhluti | 78-83 :
Góð rispa hjá gestunum og þeir eru skyndilega komnir í fína stöðu. Verður að hrósa Hairston og Justin Shouse, þeir eru búnir að spila allar mínútur leiksins. Þetta eru alvöru stríðsmenn. Finnur tekur leikhlé þegar ein og hálf er eftir.

4. Leikhluti | 78-81 :
Jafnt þegar fjórar mínútur eru eftir og Helgi Már var að fá sína fimmtu villu. Hann hefur lokið leik í kvöld og verður að treysta á liðsfélaga sína. Byrjar vel, Brynjar setur niður erfiðan þrist úr horninu.



4. Leikhluti | 74-78 :
Misskilningur við dómaraborðið og Teitur brennir leikhlé vegna þess sem hann sagðist vera hættur við.   



4. Leikhluti | 72-74 :
Sigurður Dagur Sturluson setur niður þrist og munurinn kominn í tvö stig. Hairston er eitthvað að kveinka sér, hann haltrar allt núna. Stjörnumenn þurfa á öllum sínum mönnum að halda.  

4. Leikhluti | 63-69 :
Helgi Már setur niður fyrstu stig leikhlutans en fær svo strax sína fjórðu villu. Hann fer á bekkinn ósáttur með dómarana.   

3. Leikhluta lokið | 63-67:
Tíu mínútur eftir, ná heimamenn að snúa taflinu við? Þetta verður háspenna fram á lokasekúndur leiksins, veisla. 

3. Leikhluti | 61-67:
Brotið er á Marvini fyrir utan þriggja stiga línuna og hann setur niður öll þrjú. Alvöru maður.  

3. Leikhluti | 56-63 :
Liðin skiptast á því að skora hérna, gestirnir halda áfram að reyna þriggja stiga skot en þeir eru alls komnir með 28 tilraunir.

3. Leikhluti | 52-55 :
Rándýr dagskrá, Dagur Kári sér Matthew Hairston á ferðinni hinumegin á vellinum og sendir alley-oop sendingu sem Hairston treður með látum og stuðningsmenn Stjörnunnar taka við sér.

3. Leikhluti | 48-53 :
Justin Shouse setur niður þrist og áhorfendur taka við sér.

3. Leikhluti | 40-48 :
Ná heimamenn að framlengja tímabilið? Þeir hafa 20 mínútur til þess.

Hálfleikur | 40-48 :
Virkilega flottur leikhluti hjá KR-ingum sem taka 8 stiga forskot inn í hálfleik. Þetta hafa þeir náð að gera nánast án Demonds Watts sem hefur verið einfaldlega áhorfandi hingað til. Það hefur hinsvegar ekki háð liðinu mikið, Ingvaldur Magni átt góða innkomu með átta stig, þrjá stolna bolta, þrjú varin skot og tvö fráköst.

2. Leikhluti | 39-47 :
Loksins kemst Demond Watt á blað, treður eftir góða sendingu frá Pavel.  

2. Leikhluti | 39-42 :
Hairston nær frákasti og treður yfir Helga. Hann er aðeins einu frákasti frá tvöfaldri tvennu. 



2. Leikhluti | 32-34 :
Darri og hægra hornið, hann er óstöðvandi úr þessu hægra horni.  

2. Leikhluti | 26-26 :
Stjörnumenn búnir að hitta úr fimm þriggja stiga skotum í sjö tilraunum, 71% nýting. Ekki amalegt það.

1. Leikhluta lokið | 23-23:
Pavel setur niður þrist og KR-ingar ná forskotinu en Hairston svarar með þrist langt fyrir utan línuna. KR-ingar keyra upp og brotið er á Helga. Hann skellir sér á vítalínuna og jafnar leikinn. Í hlénu setur ungur drengur niður þrist og vinnur sér inn 52 pizzur, ekki amalegt það.



1. Leikhluti | 18-16:
Allt annað að sjá til KR liðsins eftir að Magni kom inn fyrir Demond sem var kominn með tvær villur. Brynjar brýtur á Justin og Stjörnumenn eru komnir í bónusinn þegar tvær og hálf eru eftir af leikhlutanum.

1. Leikhluti | 13-8:
Eitthvað eru gestirnir að vakna til lífsins, Magni Hafsteinsson komið sterkur inn af bekknum fyrir Demond.

1. Leikhluti | 11-3:
Góður kafli hjá heimamönnum en á sama tíma gengur KR-ingum illa að hitta. Marvin Valdimars setur niður skot frá vítateigslínunni og fær vítaskot með því. Finnur tekur leikhlé en Marvin sallar þessu niður. Junior kominn með sex fráköst þegar fjórar mínútur eru búnar af leikhlutanum.

1. Leikhluti | 3-3:
Darri Hilmars virðist kunna vel við sig í hægra horninu hérna í Ásgearði, hann klikkaði ekki í síðasta leik og fyrsta skotið dettur í kvöld. Marvin svarar með þrist á hinum enda vallarins.

1. Leikhluti | 0-0:
Enn stigalaust eftir mínútu en við fengum að sjá stórkostleg varin skot. Demond Watt varði skot Fannars við körfuna og var við það að troða hinu megin á vellinum þegar Hairston blokkaði troðsluna hans með látum.

1. Leikhluti | 0-0
Marvin, Justin, Hairston, Fannar og Dagur Kári byrja hjá heimamönnum. Darri, Demond, Martin, Pavel og Helgi hjá KR-ingum.

Fyrir leik:
Léttar kyndingar í gangi fyrir leik milli stuðningsmannasveitanna, gaman af þessu. Fimm mínútur í leik, vonandi verður þetta veisla.

 

Fyrir leik:
Pavel Ermolinskij og Martin Hermannsson búnir að skipta um númer líkt og samkomulag var gert um. Báðir leikmenn vilja vera í treyju númer 15 og skiptast þeir á milli tapleikja. Spurning hvort það eigi eftir að hafa áhrif en Pavel spilaði töluvert betur í treyju númer 15 heldur en 9 líkt og kom fram á Vísi fyrir mánuði.



Fyrir leik:
Fannar Freyr Helgason, miðherji Stjörnumanna er klár í slaginn þrátt fyrir að hafa snúið sig á ökkla í síðasta leik liðanna. Hann tekur allaveganna fullan þátt í upphituninni.

Fyrir leik:
Miðjan, stuðningsmannasveit KR-inga er mætt til að styðja við bakið á sínum mönnum. Þétt setið á bekkjunum þrátt fyrir að tuttugu mínútur séu til leiks, vonandi fáum við góðan leik og stemmingu í stúkunni.



Fyrir leik:
Matthew James Hairston fór gjörsamlega hamförum í leik liðanna í DHL höllinni. Hairston setti niður 41 stig, þar af 20 í þriðja leikhluta ásamt því að taka niður 16 fráköst. Gestirnir úr Vesturbænum eru eflaust búnir að liggja yfir því hvernig eigi að stoppa hann fyrir leik kvöldsins.



Fyrir leik:
Einhverjr voru á því að einvígið væri búið þegar KR-ingar völtuðu yfir Stjörnumenn fyrir viku síðan. Garðbæingar voru ekki á þeim buxunum og mættu dýrvitlausir í DHL Höllina og sigruðu leik þrjú.

Fyrir leik:
Heimamenn einfaldlega þurfa á sigri að halda í kvöld. Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir KR en þrjá sigurleiki þarf til að bóka sæti í úrslitum.

Fyrir leik
: Komiði sæl og blessuð. Hér verður leik Stjörnunnar og KR lýst.

vísir/valli
vísir/valli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×