Körfubolti

Allt annar Pavel í númer fimmtán

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinski hefur spilað vel með KR í vetur og ekki síst eftir að hann endurheimti treyju númer fimmtán í janúar.
Pavel Ermolinski hefur spilað vel með KR í vetur og ekki síst eftir að hann endurheimti treyju númer fimmtán í janúar. Vísir/Pjetur
 Pavel Ermolinski hefur sett nýtt met í úrvalsdeild karla með því að ná sjö þrennum í Dominos-deild karla í vetur en um leið var hann einnig fyrstur til að ná þrennu í þremur leikjum í röð og sá sem nær þrennum með fæstra daga millibili. Hver þrenna kappans tryggir honum ennfremur enn betri stöðu í efsta sæti listans yfir flestar þrennur í sögu úrvalsdeildar karla en þær eru núna orðnar fimmtán.

Það sem vekur þó mikla athygli er gríðarlegur munur á framlagi Pavels Ermolinskij eftir því hvort hann spilar í sínu uppáhaldsnúmeri, fimmtán, eða treyju númer níu þegar hann gaf Martin Hermannsyni eftir treyju númer fimmtán og fékk hans treyju í staðinn.

Báðir vilja þeir Pavel og Martin spila í treyju fimmtán eins og Fréttablaðið fjallaði um fyrr í vetur og komust þeir að samkomulagi um að skipta við hvern tapleik. Tapleikirnir hafa aðeins verið tveir, í bikarnum á móti Njarðvík í nóvember og í deildinni á móti Grindavík í fyrsta leik ársins 2014. Pavel skipti því úr fimmtán í níu í nóvember og svo úr níu í fimmtán í janúar.

Þegar tölfræði Pavels í deildinni er skoðuð eftir því í hvaða treyju hann spilar kemur í ljós gríðarlegur munur á framlagi hans og í raun hefur Pavel verið á rosalegri siglingu eftir að hann komst aftur í treyju fimmtán.

Pavel hefur verið með þrennu í síðustu þremur leikjum sínum og er með þrennu að meðaltali í undanförnum fimm leikjum (14,6 stig – 11,2 fráköst – 11,2 stoðsendingar). KR hefur að sjálfsögð unnið þá alla enda er Pavel illviðráðanlegur á góðum degi. Það eru aðeins átta leikir síðan hann komst aftur í treyju fimmtán eftir skell á móti Grindavík í DHL-höllinni.

Fyrsti leikurinn á móti ÍR var ekki einn af þeim bestu í uppáhaldstreyjunni í vetur en eftir súperleik í sigri á Snæfelli (28 stig, 12 fráköst og 12 stoðsendingar) hefur Pavel næstum því alltaf verið á þrennuvaktinni. Pavel var ekki nálægt þrennu í einum af síðustu sjö leikjum en þá gerði hann út um leikinn með því að skora sigurkörfuna á móti Stjörnunni.

Pavel er með þriggja þrennu forskot á Haukamanninn Emil Barja og því þegar búinn að tryggja sér „þrennutitilinn“ þegar tvær umferðir eru eftir alveg eins og KR-liðið er þegar búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Næst á dagskrá er að fara að grafa upp þrennumetin í úrslitakeppninni þar sem Pavel og KR-liðið er líklegt til afreka.



Treyjuáhrifin á Pavel Ermolinskij leyna sér ekki:

Þrefaldar tvennur:

Í treyju númer fimmtán: 6 í 11 leikjum

Í treyju númer níu: 1 í 9 leikjum

Mismunur: +5

Stig í leik

Í treyju númer fimmtán: 13,6

Í treyju númer níu: 11,6

Mismunur: +2,3

Fráköst í leik

Í treyju númer fimmtán: 12,3

Í treyju númer níu: 10,3

Mismunur: +1,9

Stoðsendingar í leik

Í treyju númer fimmtán: 8,7

Í treyju númer níu: 6,3

Mismunur: +2,4

Framlag í leik

Í treyju númer fimmtán: 26,2

Í treyju númer níu: 19,9

Mismunur: +6,3



----

Þrennumetin hans Pavels Ermolinskij í vetur

7

Flestar þrennur á einu tímabili

3

Þrennur í flestum leikjum í röð

4

Fæstir dagar á milli þrennna

15

Flestar þrennur í sögu úrvalsdeildar karla




Fleiri fréttir

Sjá meira


×