Viðskipti innlent

Opinberar álögur og minnkandi kaupmáttur fækkar flugfarþegum innanlands

Heimir Már Pétursson skrifar
Þrátt fyrir mikla fjölgun ferðamanna til landsins á síðasta ári, fækkaði farþegum Flugfélags Íslands um ellefu prósent. Forstjóri félagsins segir óhóflegar opinberar álögur stuðla að fækkun farþega.

Icelandair Group, móðurfélag Icelandair og Flugfélags Íslands,  kynnti farþegatölur sínar í vikunni. Mikill vöxtur er í millilandafluginu og flutti Icelandair 2,3 milljónir farþega í fyrra, rúmlega sjö sinnum alla íslensku þjóðina og er fjölgun farþega milli áranna 2012 og þrettán 12 prósent.

Fjölgunin er enn meiri ef bara er litið á desember, en í síðasta mánuði flutti Icelandair tæplega 141 þúsund farþega sem er fjölgun upp á 18 prósent frá desember 2012.

Það vekur hins vegar athygli að Flugfélag Íslands virðist ekki njóta þessarar grósku og fjölgunar ferðamanna, því farþegum félagsins fækkaði um 11 prósent á síðasta ári þegar félagið flutti um 307 þúsund farþega í innanlandsflugi og Grænlandsflugi.

„Við höfum vissulega notið þess að það hafa komið fleiri ferðamenn til landsins. Við höfum séð aukningu á erlendum ferðamönnum í innanlandsfluginu hjá okkur upp á 22 prósent á síðasta ári. Hins vegar hefur innlendi markaðurinn, Íslendingurinn, hann hefur verið mjög veikur og farþegum þar hefur fækkað um 13 prósent. Þannig kemur heildarfækkunin út upp á 11 prósent á síðasta ári,“ segir Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Árni segir að ein skýringin sé að opinber gjöld á innanlandsflugið hafi aukist mikið og nánast tvöfaldast frá árinu 2009, en súlurnar á meðfylgjandi mynd  sýna farþegafjöldann frá árinu 2009, blá línan sýnir þróun opinberra gjalda almennt og sú rauða á hvern farþeg;, í samanburði við vísitölu neysluverðs á grænu línunni og verð á meðalfargjaldi til Akureyrar á fjólubláu línunni.

„Við höfum reynt að halda aftur af þessum hækkunum þannig að þær fari ekki út í verðlagið, en auðvitað hefur eitthvað af þeim þurft að rata þangað,“ segir Árni.

En það er fleira sem hefur áhrif á fjölda farþega, því versnandi kaupmáttur hefur líka áhrif, því meirihluti farþeganna eru sjálfborgandi farþegar.

„Já, það hefur veruleg áhrif og þess vegna hefur kannski rýr kaupmáttur Landans undanfarin ár haft veruleg áhrif á farþegafjöldann. Við höfum oft sagt að fjöldi farþega í innanlandsfluginu sé nokkurs konar barometer á efnahagsástandið og það hefur ekki verið gott á síðasta ári og undanfarin ár,“ segir Árni Gunnarsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×