Viðskipti innlent

Fallið frá hækkun hjá Herjólfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Eimskipafélagið
Samningsbundin gjaldskrárhækkun Herjólfs um þrjú prósent um áramótin hefur verið dregin til baka. Þá er mjög mikilvægt að ekki verði kostnaðarhækkanir á rekstrarliðum Herjólfs, samkvæmt tilkynningu frá Eimskipafélaginu.

Samningur Eimskipa við Vegagerðina um rekstur Herjólfs kveður á um breytingar á gjaldskrá einu sinni á ári sem tekur mið af verðlagsþróun kostnaðarliða.

„Eimskip eins og flest fyrirtæki í landinu þolir illa hækkanir á kostnaði aðfanga og aðkeyptrar þjónustu í ríkjandi efnahagsástandi. Eimskip hafði í byrjun þessa árs farið í gegnum vinnu við endurskoðun á verðskrám félagsins og tekið mið af þeim kostnaðarverðsbreytingum sem áttu sér stað á liðnu ári,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir ennfremur að þrátt fyrir verðhækkunarþörf vegna hækkunar á aðföngum og aðkeyptri þjónustu, hafi verið ákveðið að hækka ekki gildandi verðskrá í millilandaflutningum og annarri flutningatengdri þjónustu. Það hafi verið gert til að sýna samstöðu með átaki Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands „í viðleitni þeirra og aðdáunarverðri tilraun til að halda verðbólgu niðri og tryggja stöðugleika.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×