Innlent

28 virkjanir færist yfir í nýtingarflokk

Kristján Már Unnarsson skrifar
Orkufyrirtækin hafa óskað eftir að 28 virkjunarkostir, sem búið var að salta í tíð síðustu ríkisstjórnar, verði færðir yfir í nýtingarflokk. Af þeim eru sex virkjunarkostir sem settir voru í verndarflokk.

Það er rifist um Norðlingaölduveitu þessa dagana, einnig virkjanir í neðri Þjórsá, og það verður sannarlega boðið upp á gnægð deiluefna, nú þegar þriðji áfangi rammaáætlunar er að hefjast.

Samtök orkufyrirtækja, Samorka, hafa haldið því fram að í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi allt að 18 virkjunarkostir verið stöðvaðir út frá pólitískum forsendum með því að vikið hafi verið frá faglegum niðurstöðum verkefnisstjórnar rammaáætlunar. Þessir kostir koma nú flestir til endurskoðunar, - og raunar fleiri.

Tillögur sem bárust Orkustofnun áður en frestur rann út í desember eru frá öllum helstu orkufyrirtækjum landsins, meirihlutinn frá Landsvirkjun.

Vatnsaflsvirkjanir sem fyrirtækin vilja færa úr biðflokki eru: Glámuvirkjun, Skatastaðavirkjun í tveimur útgáfum, Fljótshnúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjun, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Búlandsvirkjun, Hólmsárvirkjun, bæði við Einhyrning án miðlunar og Atley, Skrokkölduvirkjun, Hagavatnsvirkjun og Búðartunguvirkjun.

Háhitavirkjanir sem fyrirtækin vilja úr biðflokki eru: Trölladyngja, Austurengjar, Innstidalur, Þverárdalur, Ölfusdalur, tveir áfangar við Hágöngur, og Fremrinámar.

Fyrirtækin vilja fjóra vatnsaflskosti úr verndarflokki: Hólmsárvirkjun við Einhyrning með miðlun, Tungnaárlón, Bjallavirkjun og Norðlingaölduveitu.

Tvö háhitasvæði vilja þau úr verndarflokki; Grændal og Gjástykki.

Þá er gerð tillaga um þrjá nýja kosti, sem ekki hafa áður komið til skoðunar í rammaáætlun; virkjun í Stóru-Laxá og vindaflsvirkjanir á Þjórsár-Tungnaársvæði og Blöndusvæði.

En má álykta út frá þessu að orkufyrirtækin séu ólm í að virkja sem mest?

„Nei, ekki endilega það. Þau vilja bara halda þessum kostum til haga og halda þeim inni í áætlun,“ svarar Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar hjá Orkustofnun. Hann vonast fremur til að öldurnar lægi og menn geri sér grein fyrir því að þarna sé um áætlun að ræða en ekki ákvörðun.

Kristinn Einarsson, yfirverkefnisstjóri auðlindanýtingar hjá Orkustofnun.
„Þetta er ekki jafnnálægt framkvæmdastigi, eins og það hafði tilhneigingu til í 1. og 2. áfanga.“ Bæði umhverfismat og skipulagsferli sveitarfélaga gefi færi á nánari skoðun einstakra verkefna. 

Orkustofnun getur sjálf bætt fleiri kostum inn áður en hún sendir tillögurnar áfram til verkefnisstjórnar rammaáætlunar. „Mér finnst líklegt að við bætum einhverju við en það verður ekki mikið. Það verður að líta líka á það að í öðrum áfanga rammaáætlunar var ekki nema rúmlega helmingur af þeirri vatnsorku sem tæknilegar forsendur eru til að nýta.“ 

Kristinn segir að á endanum verði þetta þó pólitísk ákvörðun en þriðja áfanga rammaáætlunar á að ljúka árið 2016. „Þetta endar sem ályktun Alþingis.“


Tengdar fréttir

Blés á laxarökin gegn virkjunum í Þjórsá

Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra, greinir frá því í bók sinni, Ári drekans, að hann blási á "laxarökin“ sem síðasta ríkisstjórn notaði til að salta Þjórsárvirkjanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×