Innlent

Ráðherra óviss um tekjur af nýju frumvarpi

Stefán Óli Jónsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson VISIR/PJETUR
Sjávarútvegsráðherra vonast til að leggja fram frumvarp á næstu vikum um stjórnun fiskveiða sem tækju gildi í haust.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að leggja sérstakan skatt á hagnað sjávarútvegsfyrirtækja.

Ráðherra segir óljóst hvort að tekjur ríkissjóðs muni hækka eða lækka með nýja frumvarpinu.

„Þetta er svona á hröðum endaspretti og við erum að leggja lokahönd á þetta og ég vænti því að við getum komið þessu inn í þing sem fyrst. Þar er tekið á þessu í heild sinni en ekki einungis um veiðigjöld,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Núverandi lög um stjórnun fiskveiða falla úr gildi þann 1. september næstkomandi. Gert er ráð fyrir talsverðum breytingum í frumvarpi ráðherra og verður m.a. lagur sérstakur skattur á hagnað sjávarútvegsfyrirtækja. „Ef að það gengur mjög vel að þá munu þau fyrirtæki sem skila miklum hagnaði skila hluta af því til ríkisins."

Sigurður Ingi segir að hann hafi átt mikið samráð við helstu hagsmunaðila í sjávárútvegi. „Ég ætla að leggja mikið á mig til að ná fram sem víðtækastri sátt. Það þýðir auðvitað að það verði ekkert allir ánægðir.“

Ríkissjóður fær um 10 milljarða árlega í tekjur af sérstöku veiðileyfagjaldi. Ráðherra segir ekki ljóst hvort að tekjur ríkissjóðs muni lækka með nýju frumvarpi.

„Ef allt gengur vel og við fáum hæstu verð sem þekkjast á mörkuðunum þá mun leigugjaldið og sérstaki skatturinn skila umtalsverðum tekjum til þjóðarinnar. Ef það gerist ekki þá er mjög ósanngjarnt að gera fyrirtæki gjaldþrota og í raun heimskulegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×