Viðskipti innlent

Breytir sláturhúsi í þriggja stjörnu hótel

Kristján Hjálmarsson skrifar
Ólafur Sæmundsson stendur hér við nýja hótelið. Framkvæmdir við það hófust 1. júlí í fyrra en hótelið verður opnað í lok mánaðarins.
Ólafur Sæmundsson stendur hér við nýja hótelið. Framkvæmdir við það hófust 1. júlí í fyrra en hótelið verður opnað í lok mánaðarins. Mynd úr einkasafni
„Þetta var hlutverkalaust hús í anddyri þorpsins og hafði ekki verið notað síðan rétt fyrir aldamót,“ segir Ólafur Sæmundsson húsasmíðameistari, sem leggur nú lokahönd á nýtt 40 herbergja, þriggja stjörnu hótel við Aðalstræti 100 á Patreksfirði sem verður opnað í lok mánaðarins.

Húsið sem um ræðir var byggt á árunum 1938-39 og þá sem frystihús. Árið 1961 var frystigeymsla byggð við húsið en 1981 var frystihúsinu sjálfu breytt í sláturhús. Húsið stóð sem fyrr segir autt til lengri tíma en nú hefur það fengið nýtt hlutverk. Ólafur starfar sem byggingarstjóri en rekstur hótelsins verður í höndum Fosshótela.

„Það var ekkert hótel á Patreksfirði fyrir, aðeins gistiheimili,“ segir Ólafur. „Hér eru mikil náttúrundur og mikil náttúra til að sýna en það hefur háð sunnanverðum Vestfjörðum að það hefur ekki verið neitt hótel sem hefur getað tekið á móti stórum hópum. Hér fá allir prívatherbergi með baði og svo verður boðið upp á fínan dinner.“

Þegar Ólafur, sem rekur verktakafyrirtækið TVT í félagi við Guðmund Kjartansson húsasmíðameistara, tók við húsinu var það stórt, gluggalaust verksmiðjuhús. Fyrsta verk var því að saga út glugga. Byggingavinnan hefur nú staðið yfir í tæpt ár. Hótelið á að opna 20. maí og það er fullbókað 24. maí. 

Þetta er ekki fyrsta verkið sem Ólafur kemur að á Patreksfirði. Hann breytti gamla stúkuhúsinu í kaffihús sem hóf rekstur í fyrra. 

„Hnignunartímabilið hér hófst í kringum árið 1989 en ég hef verið svo heppinn að fá að taka þátt í þessum viðsnúningi. Nú eru tvö laxeldisfyrirtæki sem starfa hér svo það er mikil jákvæðni og gróska í gangi sem á eftir að skapa ný störf og veita fólki atvinnutækifæri.“ 

Ólafur segir að þegar hrunið hafi orðið á Íslandi hafi fyrirtæki hans ekki horft til Noregs heldur landsbyggðarinnar. „Það er fullt af tækifærum og atvinnuuppbyggingu um land allt og við erum bara að sinna því,“ segir hann.

Og Ólafur er stoltur Patreksfirðingur. „Hér er ég fæddur og uppalinn og stoltur af því. Ég hef aldrei farið þó að ég hafi haft viðveru annars staðar. Ég hef komið hingað á hverju ári í verk og viðhald á húsum. Þetta er þorpið mitt, það ól mig upp og fyrir vikið skulda ég því mikið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×