Viðskipti innlent

Sóley biðst afsökunar: Varaði sig ekki á fölsku brosi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
SamsettMynd/Flickmylife
„Þetta var algjört hugsunarleysi hjá okkur og fáránleg mistök,“ segir Sóley Elíasdóttir, konan að baki Sóley Organics, en Sóley fékk sent bréf frá ánægðum viðskiptavini í síðasta mánuði. Sóley líkaði ekki myndin sem fylgdi upprunalega bréfinu og setti aðra mynd við, sem hún hafði fengið af erlendum myndabanka á netinu.

„Mér fannst myndin ekki nógu og flott, þannig að ég sett aðra mynd inn á sem ég tók úr myndabanka Getty. Svo bara vatt þetta upp á sig,“ segir Sóley jafnframt, en Flickmylife gerði sér meðal annars mat úr myndaskiptunum.

„Ég gerði mér ekki grein fyrir því að þetta væri ekki í lagi og við erum að reyna að vinda ofan af þessu. Þetta er asnalegt fyrir okkur sem fyrirtæki og bara almennt,“ útskýrir Sóley.

„Mér þykir þetta mjög leiðinlegt,“ bætir hún við.

„Bæði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins, en líka vegna þeirrar sem sendi bréfið. Bréfið var alveg einlægt,“ segir Sóley.

Sóley segir fyrirtækið ætla að biðjast afsökunar með því að gefa varasmyrsl.

„Við gerðum ömurleg mistök og ætlum að bæta fyrir það með því að gefa KISStu mig varasmyrsl í Heilsuhúsinu í Kringlunni og í Systrasamlaginu á Seltjarnarnesi á morgun,“ segir Sóley, en þeir sem vilja fá KISStu mig gefins geta sent myndir af vörunum á sér í gegnum kassmerkið #Soleyorganics.

Sóley segir fyrirtækið ekki vera að ljúga að viðskiptavinum.

„Þetta var bara óábyrgt og algjört hugsunarleysi. Mig langaði að koma því til skila að okkur þykir þetta leiðinlegt og þetta voru stór mistök og við sjáum að þetta var rangt af okkur,“ segir Sóley að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×