Viðskipti innlent

Mikil umframeftirspurn í útboði á VÍS hlutum

Vel heppnuðu almennu útboði á hlutabréfum í Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS) lauk í gær þar sem tæplega 5.000 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf fyrir samtals um 150 milljarða króna.

Fyrirtækjaráðgjöf Fjárfestingabankasviðs Arion banka hf. hafði umsjón með útboðinu og fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll nú í kjölfar útboðsins, en seljandi hlutanna er Klakki ehf.

Í tilkynningu segir að í ljósi eftirspurnar ákvað Klakki að nýta heimild sína til stækkunar útboðsins og nemur því endanleg stærð þess 70% af útgefnum hlutum í VÍS. Söluandvirði útboðsins er 14,3 milljarðar króna. Tilboðum á genginu 7,95-9,20 krónur á hlut var tekið við úthlutun, en endanlegt útboðsgengi í tilboðsbókum A og B er 7,95 krónur á hlut og í tilboðsbók C er meðalgengi 8,52 krónur á hlut.

Um 14,55% af útgefnum hlutum VÍS verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók A fyrir kaupum að andvirði 0,1-50 milljónum króna og hverjum aðila úthlutað hlutabréfum að andvirði um 0,1-1,5 milljónum króna.

Um 30,70% af útgefnum hlutum VÍS verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók B fyrir kaupum að andvirði 50 milljónum króna eða meira og verður hverjum aðila úthlutað sem nemur 5% af gildri áskrift sinni. Fjárfestum sem skráðu sig í tilboðsbók C verður úthlutað 24,75% af útgefnum hlutum VÍS fyrir andvirði um 5,3 milljörðum króna.

„Það er virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla áhuga fjárfesta í útboðinu og niðurstaða þess er góð fyrir bæði Klakka og VÍS. Eftir útboðið á Klakki enn hagsmuna að gæta í félaginu og fagnar því að geta boðið tæplega fimm þúsund nýja hluthafa velkomna á þessum tímamótum,“ segir Magnús Scheving Thorsteinsson, forstjóri Klakka.

Gert er ráð fyrir að viðskipti með hluti í VÍS geti hafist á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands miðvikudaginn 24. apríl næstkomandi en Kauphöllin mun tilkynna um fyrsta viðskiptadag með minnst eins viðskiptadags fyrirvara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×