Innlent

Heimatilbúnu bomburnar eru hættulegastar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Viðar Magnússon, læknir á bráðamóttöku, segir það atriði númer eitt, tvö og þrjú að vera með hlífðargleraugu þegar flugeldum er skotið upp.
Viðar Magnússon, læknir á bráðamóttöku, segir það atriði númer eitt, tvö og þrjú að vera með hlífðargleraugu þegar flugeldum er skotið upp. Mynd/Valli
Flest slys vegna flugelda verða vegna þess að ekki er farið eftir leiðbeiningum um meðhöndlun, hlífðarbúnaður er ekki notaður eða flugeldar eru teknir í sundur og búnar til sprengjur.

Viðar Magnússon, læknir á bráðamóttöku Landspítalans, segir alltaf mikinn eril á bráðamóttökunni á gamlárskvöld og á hverju ári verði alvarleg slys sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir með meiri varkárni.

„Atriði númer eitt er að verja augun. Það eiga allir að vera með hlífðargleraugu. Annað eru brunaáverkar, það á auðvitað alltaf að fara varlega í kringum eld. Í þriðja lagi á aldrei að halda á flugeldum sem eru ekki til þess ætlaðir.“

Fyrir tæpum fjórum árum lést ungur maður er hann var að búa til rörasprengju og notaði púður úr flugeldum til þess. Viðar segir alvarlegustu slysin verða þegar fiktað er í flugeldunum. „Það má aldrei taka í sundur flugelda og festa saman á ný og búa þannig til nýjar sprengjur. Heimatilbúnu bomburnar eru hættulegastar.“

Viðar segir fyrstu viðbrögð mikilvæg ef slys verða. „Ef flugeldur fer í auga og einhver efni fara í það þá er gott að skola augað strax og fara svo beint á bráðamóttökuna. Ef bruni verður á að kæla strax, til dæmis með köldum bökstrum, og svo koma strax til okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×