Viðskipti innlent

Vilja fella niður gjaldtöku fyrir tollkvóta

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir skynsamlegt að hverfa frá hindrunum sem draga úr samkeppni.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir skynsamlegt að hverfa frá hindrunum sem draga úr samkeppni.
Atvinnuveganefnd Alþingis gerir ekkert með umsagnir Samkeppniseftirlitsins og hagsmunasamtaka, þar sem lagt er til að kerfi tollkvóta á innflutning landbúnaðarafurða verði endurskoðað.

Fyrir Alþingi liggur frumvarp landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra sem miðar að því að sníða vankanta af breytingum á tollalögum sem voru gerðar í fyrra, eftir að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að heimildir ráðherra til að ákveða tolla á innflutningskvóta brytu í bága við stjórnarskrá.

Stefna stjórnvalda er að vernda innlenda landbúnaðarframleiðslu með háum innflutningstollum. Samkvæmt samningum Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) má þó flytja inn lítið magn búvöru á lægri tollum. Stjórnvöld hafa hingað til úthlutað tollkvótunum með uppboði, sem þýðir að sá sem býður hæst fær að flytja inn vöruna, en hún verður dýrari fyrir vikið.

Klúðrið sem lagabreytingin í fyrra orsakaði felst í að „tollur á dýrari vörur verður umtalsvert hærri en á ódýrari vörur“ eins og segir í greinargerð frumvarpsins. Reikniformúlan sem lögin kveða á um leiddi af sér að tollur á dýru nautakjöti, sem mátti flytja inn vegna kjötskorts, varð hærri en reglugerðir WTO og samningar Íslands við Evrópusambandið kveða á um.

Þetta er reynt að lagfæra í nýja frumvarpinu, meðal annars með því að kveða á um að magntollur á vörum sem fluttar eru inn á lægri tollum verði aldrei meira en 45% af almennum magntolli samkvæmt tollskrá.

Þetta atriði gagnrýna Bændasamtök Íslands í umsögn um frumvarpið. „Krónan kann að styrkjast á næstu misserum og eftir því sem hún styrkist gagnvart erlendum gjaldmiðlum kann sú staða að koma upp að tollverndin kunni að rýrna.“

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins er lagt til að horfið sé alveg frá tollum. „Við teljum skynsamlegt fyrir alla að hverfa frá þessum hindrunum. Þær eru til þess fallnar að draga úr samkeppni og samkeppni er forsenda þess að framleiðni náist og góður rekstur,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. „Þetta eru hagsmunir neytenda og framleiðenda. Því auðvitað er hagur bænda að búa í haginn fyrir samkeppni.“

Ef ekki stendur til að afnema innflutningshömlur kemur Samkeppniseftirlitið með tillögu að úrbótum. „Við teljum koma til greina að úthlutun verði endurgjaldslaus og eftir atvikum hlutkesti varpað ef umsóknir eru umfram kvóta,“ segir Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×