Skoðun

Opið bréf til stjórnar Ríkisútvarpsins

Arngunnur Árnadóttir, Júlía Mogensen, Melkorka Ólafsdóttir, Valgerður Þóroddsdóttir og aðdáendur Ríkisútvarpsins skrifa
Til Ingva Hrafns Óskarssonar, Magnúsar Stefánssonar, Bjargar Evu Erlendsdóttur, Guðrúnar Nordal, Margrétar Frímannsdóttur, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, Úlfhildar Rögnvaldsdóttur, Sigurðar Bjarnar Blöndal, Péturs Gunnarssonar og Sigríðar Hagalín Björnsdóttur.

Undirritaðar eru skipuleggjendur samstöðufundar um Ríkisútvarpið sem haldinn var í Háskólabíói 4. desember síðastliðinn.

Við hörmum aðgerðir útvarpsstjóra þann 27. nóvember, þegar fjölda lykilstarfsmanna var sagt upp og mikið af ómetanlegu dagskrárefni lagt niður. Skörð voru höggvin í dagskrá Rásar 2, fréttastofuna, Kastljós og Spegilinn, en Rás 1 kom einna verst út úr aðgerðunum. Rás 1 missti við uppsagnirnar rúman helming starfsfólks síns en hlaut þó fyrir aðgerðirnar aðeins 7% af fjármagni Ríkisútvarpsins.

Okkur er kunnugt um fyrirhugaðan niðurskurð stjórnvalda til Ríkisútvarpsins. Í ljósi hans verður þó ekki sagt að aðgerðir útvarpsstóra hafi verið óhjákvæmilegar. Þvert á móti endurspegla þær fyrst og fremst forgangsröðun stjórnenda sem að okkar mati er í þó nokkru ósamræmi við lögbundið hlutverk Ríkisútvarpsins. Það að vega svo harkalega að starfsemi Rásar 1 er ekki réttlætanlegt með tilliti til þeirrar staðreyndar að heildarlaun og þóknanir til æðstu stjórnenda jukust úr 57,8 milljónum í 74,6 milljónir milli áranna 2012 og 2013. Ekkert var skorið niður í yfirstjórn Ríkisútvarpsins við uppsagnahrinuna.

Erfitt að átta sig

Erfitt er að átta sig á viðmiðum útvarpsstjóra í uppsögnum á Rás 1. Tónlistardeildin hefur nánast verið jöfnuð við jörðu og eini útvarpsþátturinn fyrir börn var lagður niður, auk vandaðs þáttar um kvikmyndir. Eini dagskrárliður Ríkisútvarpsins sem fræðir almenning um vísindi, og það á ótrúlega aðgengilegan hátt, var tekinn af dagskrá. Þaulreyndu, menntuðu og verðlaunuðu starfsfólki var sagt upp.

Ummæli útvarpsstjóra á Bylgjunni sunnudaginn 8. desember vörpuðu nokkru ljósi á málið. Þar sagði hann m.a.: „Það má ekki hafa skírskotunina of þrönga, þetta heitir almannaþjónustuútvarp, þetta er ekki fámannaþjónustuútvarp og út á það gengur skilgreiningin á þessari starfsemi alls staðar í kringum okkur, á Norðurlöndunum, Bretlandi og alls staðar sem við tökum okkur til fyrirmyndar, að það verður að vera almenn skírskotun í dagskrárgerð, en það má ekki breyta þessu í einhverja sérviskulega, þrönga dagskrá sem hefur ekki almenna skírskotun, þá er alveg eins gott að loka þessu, þá hefur þetta enga þýðingu.“

Takmarkaður áhugi

Út frá þessum ummælum má álykta að útvarpsstjóri hafi takmarkaðan áhuga á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar. Í lögum um Ríkisútvarpið segir meðal annars:

„Ríkisútvarpið skal framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni … fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni … Ríkisútvarpið skal dreifa efni til alls landsins og næstu miða með a.m.k. tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring … Ríkisútvarpinu ber að kynna margbreytileika mannlífs, lífsviðhorfa og lífsskilyrða í landinu.“

Með hinni „almennu“ nálgun sem útvarpsstjóri boðar er unnið gegn fjölbreytni og dagskrárliðum sem hafa litla áheyrn en mikið vægi af öðrum ástæðum. Útvarpsstjóri lagði niður nokkra helstu fræðslu-, lista- og menningarþætti Rásar 1 auk barnaefnisins. Ástríðufullum hlustendum Rásar 1 hefur orðið fullljóst síðustu daga að ekki er hægt að tala um nema hálfa hljóðvarpsdagskrá á Rás 1, hinn helmingurinn er tónlist valin af handahófi, mest jólalög, og heilu plöturnar eru spilaðar til enda. Útvarpsstjóri á e.t.v. við margbreytileikann og fræðsluna þegar hann talar um „sérviskulega dagskrá“.

Rangfærslur

Auk þess virðingarleysis sem gætir í orðum útvarpsstjóra gagnvart lögum um stofnunina fer hann beinlínis með rangfærslur hvað varðar ríkisútvörp í nágrannalöndunum. BBC í Bretlandi rekur t.d. heilar fjórar útvarpsstöðvar sem helgaðar eru mismunandi tónlist, óháð fjölda hlustenda. Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins leggur nánast niður tónlistardeild einu útvarpsstöðvarinnar á landinu þar sem fjallað er um allar tegundir af tónlist.

Sýn útvarpsstjóra sem birtist í ummælum hans á Bylgjunni virðist ganga út á það að almannaútvarp lúti lögmálum markaðsins. Ríkisútvarpinu ber aftur á móti skylda til þess að sinna því sem einkareknir fjölmiðlar gera ekki. Dagskrárgerð Ríkisútvarps á ekki að vera háð markaðsöflum.

Við skorum á stjórnina að íhuga vandlega ábyrgð sína í aðgerðunum undanfarið og ígrunda afstöðu sína gagnvart því hvort útvarpsstjóri verði endurráðinn. Við hvetjum stjórnina til að tryggja að Ríkisútvarpinu sé stjórnað samkvæmt lögum um miðil í eigu þjóðarinnar. Við köllum eftir skýrri stefnu um framtíð stofnunarinnar í samræmi við lögbundið hlutverk hennar.

Um leið og við hvetjum stjórnina til úrbóta langar okkur að hvetja hlustendur og áhorfendur – eigendur Ríkisútvarpsins – til að láta í sér heyra og gefast ekki upp fyrr en árangur næst.




Skoðun

Sjá meira


×