Skoðun

Ríkisútvarpið

Gunnar Kvaran skrifar
Sú atlaga, sem hefur verið gerð að Ríkisútvarpinu í formi fjöldauppsagna nú nýlega, er ekki einungis dapurleg og erfið fyrir þá einstaklinga, sem í hlut eiga, heldur snerta þessar uppsagnir alla þjóðina og menningararf hennar. Ég hef átt því láni að fagna að eiga í Ríkisútvarpinu menningarlega uppsprettu, sem hefur þroskað mig og veitt mér aðgang að menningarlegu fjöreggi þessarar þjóðar í meira en sextíu ár.

Það sem ég hef lært um listir og menningu og ekki síst rætur íslenskrar menningar hefði enginn háskóli í veröldinni getað veitt mér.

Ríkisútvarpið hefur verið menningarlegt sameiningartákn og flaggskip íslensku þjóðarinnar frá stofnun þess árið 1930. Það fólk, sem þar hefur lengst af ráðið ríkjum, hefur haft menningarlegan metnað svo eftir var tekið. Að sjálfsögðu hefur oft staðið styr um áherslur í rekstri stofnunarinnar eins og eðlilegt er þegar um svo stóra ríkisrekna stofnun er að ræða. Þrátt fyrir það hefur rekstur Ríkisútvarpsins ætíð einkennst af miðlun og varðveislu menningar á háu plani.

Raunveruleg manngildi

Það sem nú hefur gerst er ekki einungis að stór hluti gömlu Gufunnar hefur verið lagður í rúst, heldur hefur fólki, sem margt hvert hefur áratuga sérþekkingu og reynslu á sínu sviði, verið varpað út í kuldann. Einmitt á þessum síðustu tímum, þegar skýrt hefur komið í ljós hversu grátt hin óhóflega og gegndarlausa dýrkun Mammons hefur leikið okkur andlega sem þjóð, er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að varðveita gildi menningar, lista og menntunar. Í menningu, listum og menntun felst ekki einungis sálarkjarni okkar sem þjóðar, heldur ekki síður raunverulegt manngildi okkar allra. Okkur ber að varðveita þau ómetanlegu gildi, sem í þessu felast þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í ríkiskassanum.

Ég vona að þeir, sem valdið hafa, hafi einnig til að bera það innsæi, glöggskyggni og framtíðarsýn, sem styrkir okkur öll í mannúð, menningu og varðveislu þeirra fjársjóða, sem okkur hefur verið trúað fyrir að gæta og ávaxta.




Skoðun

Sjá meira


×