Skoðun

PISA-niðurstöðurnar kalla á skapandi lausnir í menntamálum

Tryggvi Thayer skrifar
Eins og við mátti búast hefur mikið verið rætt um niðurstöður úr nýjustu PISA-könnuninni á síðustu dögum. Mest hefur borið á stóryrtum fullyrðingum um slæma útkomu íslenskra nemenda og sérstaklega þeirra 30% drengja sem samkvæmt niðurstöðum geta ekki lesið sér til gagns.

Það fer minna fyrir því sem jákvætt er eins og að íslenskir nemendur eru sérlega ánægðir í skólunum sínum, að á heildina litið er Ísland meðal efstu 25 landa af tæplega 70 og að á Íslandi er jöfnuður í skólakerfinu með því mesta sem mælist meðal þátttökulanda. Því er hins vegar ekki að neita að niðurstöðurnar úr PISA 2012 gefa til kynna að við þurfum að taka okkur á á ýmsum sviðum.

Það veldur sérstaklega áhyggjum sem margir hafa haldið fram hvað skólakerfið virðist úr takti við samfélagslegar og tæknilegar breytingar sem hafa átt sér stað á undanförnum árum. Flestir nemendur sinna námi sínu og gera það vel, en jafnvel þessir sömu tengja það ekki við þann veruleika sem þeir lifa og hrærast í utan skóla og enn síður við þann veruleika sem þeir horfa til í sinni framtíð. Þetta kemur m.a. fram í viðtali við nemanda sem tók þátt í PISA 2012, sem birtist á vef Vísir.is nýlega, og er samhljóma lýsingum á námi sem heyrst hafa frá námsfólki undanfarin ár.

Ef þetta er raunverulega staðan þá duga illa aðferðir sem hafa verið notaðar fram til þessa til að greina og leysa vanda skólakerfisins. Vandinn er hreinlega af allt öðrum toga en þessum aðferðum er ætlað að sinna. Því er vert að leita nýrra leiða sem geta veitt betri innsýn í eðli vandans og leitt af sér nýjar lausnir sem eru til þess fallnar að takast á við vandann.

MenntaMiðja er nýlegt samstarfsverkefni aðila sem koma að mótun menntastefnu á Íslandi og er hýst á Menntavísindasviði HÍ. MenntaMiðju er ætlað að styðja við grasrótarstarfssamfélög skólafólks, tengja saman fræðasamfélag og skólafólk og stuðla að auknu flæði upplýsinga og þekkingar er tengist námi og kennslu.

Í nóvember síðastliðnum stóð MenntaMiðja, í samstarfi við Rannsóknastofu í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM) og hönnunardeild Háskólans í Minnesóta, fyrir s.k. hönnunarsmiðju um framtíð tækni og menntunar þar sem kennarar, fræðimenn, stefnumótendur og fleiri komu saman til að kynnast og prófa þessa óhefðbundnu aðferð til að takast á við sumar þær áskoranir sem skólar standa frammi fyrir. Í hönnunarsmiðjunni er unnið í teymum samkvæmt hönnunarnálgun (e. design thinking), sem byggist á skapandi aðferðum sem iðnhönnuðir, vöruhönnuðir og arkítektar nota.

Þar skiptir mestu máli að þátttakendur setji sig í fótspor þeirra sem viðfangsefnið nær til, vinni saman og setji fram lausnir á myndrænan hátt sem hægt er að sýna fólki frekar en bara að segja frá. Allt er gert til að virkja ímyndunaraflið og að hvetja þátttakendur til að fara lengra út fyrir sinn þægindaramma í hugmyndavinnunni en þeir myndu gera við venjulegar kringumstæður.

Útkomurnar úr hugmyndavinnunni eru oft mjög óhefðbundnar og jafnvel fáránlegar, en við nánari úrvinnslu skýrast línur og afurð teymisins tekur á sig mynd sem verður framkvæmanlegri en virtist í fyrstu. Birtast þá oft mjög svo nýstárlegri leiðir til að takast á við viðfangsefnið en annars hefði verið.

Í hönnunarsmiðjunni í nóvember fengu hönnunarteymin úthlutað áskorunum sem allar höfðu á einn eða annan hátt með áhrif örra tæknibreytinga á skóla og menntun að gera. Meðal þeirra lausna sem urðu til var þrívíður forritanlegur kennari sem getur auðveldlega aðlagast þörfum einstakra nemenda, „víðsuga“ sem er eins konar hjálmur ætlaður kennurum sem sýgur til sín nýjustu þekkingu eftir þörfum, og farandmeðferðarúrræði fyrir kennara sem hafa ekki náð að fylgjast nægilega vel með tækniþróun.

Þó svo að þessar hugmyndir kunni að virðast illframkvæmanlegar má greina í þeim mögulegar aðgerðir og verkefni sem eru vel útfæranlegar. Þrívíði kennarinn gæti t.d. verið útfærður sem gervigreindarforrit sem nemendur geta notað til að dýpka skilning sinn á tilteknu námsefni.

Í þessu samhengi má segja frá því að yfirvöld í Singapúr hafa þegar tilkynnt að þau muni taka búnað, sem svipar mjög til þessa, í notkun í skólum strax á næsta ári. Víðsuguna mætti útfæra sem vefgátt þar sem nýjustu upplýsingum um kennsluhætti og tækniþróun er safnað markvisst saman og þær flokkaðar til að gera þær aðgengilegar kennurum.

Eins má segja frá því að íslenskur kennari í framhaldsnámi í Svíþjóð er núna að vinna verkefni sem svipar mjög til þessarar hugmyndar sem í fyrstu virtist nokkuð fjarri raunveruleikanum.

Margir hafa bent á nauðsyn þess að endurhugsa menntun og skólakerfið allt til að samræma það betur samfélagi í örri þróun. Ef við lítum til þeirra þjóða sem tróna á toppi margumrædds PISA-lista sjáum við þar þjóðir eins og Suður-Kóreu, Singapúr og Finnland, sem hafa verið óhræddar við að fara eigin, og oft djarfar, leiðir í menntamálum.

Ef við ætlum að fylgja fordæmi þeirra þjóða sem skara fram úr í menntamálum þurfum við að virkja alla í okkar samfélagi sem geta lagt okkur lið með þekkingu, reynslu, væntingum og ekki síst ímyndunarafli til að skapa þær leiðir sem vænlegastar eru til að skila þeim árangri sem við viljum ná.

Í gegnum starfsemi MenntaMiðju höfum við fengið að sjá hversu mikil verðmæti felast í okkar öfluga skólafólki sem hefur sýnt einstakan vilja til að kynnast og þróa nýjar leiðir í námi og kennslu, oft utan síns vinnutíma. Vel heppnaðir viðburðir eins og hönnunarsmiðjan um framtíð tækni og menntunar sýna ennfremur mikilvægi þess að nýta enn betur vettvang eins og MenntaMiðju sem hvetur til skapandi nálgunar á viðfangsefni menntakerfisins.




Skoðun

Sjá meira


×