Gagnrýni

Hjartnæmir tónleikar

Jónas Sen skrifar
Garðar Cortes. "Garðar stjórnaði túlkuninni þannig að hún varð afar sannfærandi. Hvergi var dauður punktur í henni.“
Garðar Cortes. "Garðar stjórnaði túlkuninni þannig að hún varð afar sannfærandi. Hvergi var dauður punktur í henni.“ Fréttablaðið/Stefán
Tónlist:

Mozart: Sálumessa

Langholtskirkju, aðfaranótt fimmtudagsins 5. desember.

Flytjendur: Óperukórinn og hljómsveit ásamt einsöngvurum. Stjórnandi: Garðar Cortes.



Þeir voru fölir, hljóðfæraleikararnir sem gengu á sviðið í Langholtskirkju á miðvikudagskvöldið. Nei, ekki um kvöldið heldur um nóttina. Klukkan hálf eitt aðfaranótt fimmtudagsins, hvorki meira né minna.



Af hverju í ósköpunum að halda tónleika eftir miðnætti á virkum degi? Jú, sálumessa Mozarts var á dagskránni, og Mozart dó skömmu eftir miðnætti þennan dag árið 1791.

Garðar Cortes stjórnaði Óperukórnum og hljómsveit sem mér sýndist samanstanda af hljóðfæraleikurum úr Sinfóníunni. Hann hélt stutta tölu á undan. Minntist þeirra tónlistarmanna sem létust á árinu. Sagði einnig frá því hvernig dauða Mozarts bar að. Hann var þá nýbyrjaður að semja sálumessu sem hafði verið pöntuð. Honum tókst ekki að klára hana, nemandi hans sá um það síðar. Nokkrir vinir Mozarts voru hjá honum á dauðastundinni og sungu fyrir hann hluta úr messunni án hljóðfæraleiks.



Minningarorðin voru hjartnæm, og það var líka eitthvað hjartnæmt við tónleikana í heild. Þrátt fyrir þennan vonda tónleikatíma var furðulegt hversu vel heppnaðist. Hinir fölu hljóðfæraleikarar spiluðu af nákvæmni og krafti. Enda prýðilegur konsertmeistari fremst á sviðinu, Una Sveinbjarnardóttir. Hún leiddi hljóðfæraleikarana af röggsemi.

Kórinn var jafnframt frábær. Söngurinn var gríðarlega þéttur og líflegur, sem hljómar kannski mótsagnarkennt þegar sálumessa er annars vegar. En hafa ber í huga að sálumessa Mozarts er fyrst og fremst stórfenglegt tónverk, ekki trúarathöfn. Atburðarásin er hröð, framvindan rösk og spennandi.



Garðar stjórnaði túlkuninni þannig að hún varð afar sannfærandi. Hvergi var dauður punktur í henni. Þvert á móti var hún full af gleði og lífi.



Einsöngvararnir voru fínir. Það voru Þóra Einarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Garðar Thór Cortes og Kristinn Sigmundsson. Það getur varla verið auðvelt að syngja einsöng eftir miðnætti! En ekki var nein þreytumerki að heyra á einsöngvurunum. Þvert á móti. Söngurinn var hljómmikill og tær, fyllilega í anda tónskáldsins. Þetta var áhrifarík stund.

Niðurstaða: Sálumessa Mozarts var stórbrotin og glæsileg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×