Borgarstjórinn á Skaganum Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar 7. desember 2013 11:45 Ég er ánægð með lífið og hlakka til að koma í vinnuna á hverjum einasta degi,“ segir Regína. Fréttablaðið/GVA „Ráðning mín hér á Akranesi var samþykkt í bæjarstjórninni með 9-0 og allar stórar og erfiðar ákvarðanir sem við höfum þurft að taka hafa verið samþykktar með öllum greiddum atkvæðum. Það er öðruvísi en í borginni. Þar er ekki hefð fyrir mikilli samvinnu meiri-og minnihluta. Allt getur orðið að máli. En einn góðan veðurdag verður maður að geta unnið í andrúmslofti sem er meira mannbætandi,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi sem starfaði í fimmtán ár við stjórnsýsluna í Reykjavík, þar af tíu í Ráðhúsinu. Síðasta árið var hún yfirmaður allra sviða og staðgengill núverandi borgarstjóra, fyrsta ár hans í embætti. Hún kveðst skilja Jón Gnarr vel þegar hann taki þá ákvörðun að hætta. „Það er þessi harka sem gerir það að verkum að starf stjórnenda verður svo lýjandi. En viðfangsefnin eru auðvitað spennandi, borgin er stór og fjölbreyttur vinnustaður og manni leiðist þar aldrei verkefnalega séð,“ segir hún og bætir við að þar starfi frábært fólk. Tekur líka fram að hún hafi ekki verið orðin þreytt á þeim meirihluta sem var við völd, heldur þessu pólitíska andrúmslofti. „Það komu og fóru átta borgarstjórar á tíu ára tímabili,“ minnir hún á.Hlakkar til hvers vinnudags Við sitjum í makindum á skrifstofunni hennar Regínu á Skaganum, með kaffi og góðgæti á bakka. Málverk prýða veggina og útsýnið út um horngluggann væri milljóna virði ef penslar hefðu komið þar við sögu. Kennileitin Akrafjall og Skarðsheiði - ekki eins og fjólubláir draumar heldur næstum áþreifanleg - og á hina síðuna ólgandi brimið við ströndina því þennan dag er stíf suðvestanátt. Regína kveðst hafa þurft að setja sig inn í marga nýja hluti sem bæjarstjóri þrátt fyrir að hafa hjá Reykjavíkurborg þekkt ágætlega til Akraness í gegnum Faxaflóahafnir og Orkuveituna sem Akraneskaupstaður eigi hluta í. „Þetta er búið að vera spennandi ár. Ég er ánægð með lífið og hlakka til að koma í vinnuna á hverjum einasta degi,“ segir hún brosandi. Hún býr á Akranesi og segir ekkert annað koma til greina en búa í samfélagi við fólkið sem hún sé að vinna fyrir. „Maðurinn minn starfar hjá Advania og tekur strætó milli Akraness og borgarinnar. Honum finnst það ekkert mál,“ segir hún og upplýsir að hann heiti Birgir Pálsson. „Við kynntumst fyrir 22 árum. Hann á eina dóttur, Auði Kolbrá og ég tvær, Ernu Maríu og Ýr. Þær eiga nú allar lögheimili í 101 Reykjavík en Ýr er í skiptinámi í Belgíu.“Seljastúlka í Guðbrandsdal Regína er úr Kópavogi og sleit smábarnsskónum í Birkihlíð. „Afi og amma áttu landskika, ráku þar gróðrarstöð og ræktuðu skóg, ég var mikið í kringum þau enda byggðu foreldrar mínir, þau Ásvaldur Andrésson og Erna María Jóhannsdóttir hús þar skammt frá. Það var yndislegt að alast upp í þessu umhverfi.“ Sextán ára hélt hún til Noregs að vinna á sumarhóteli við Sognefjord. „Ég heillaðist af staðnum og fór þangað aftur sumarið eftir. Útþráin var kviknuð þannig að ég hætti í Menntaskólanum í Kópavogi eftir tvo vetur, fór að vinna á vínberjabúgarði í Frakklandi ásamt vinkonum úr skólanum og síðan skíðahóteli í Geiló í Noregi. Við fórum líka þrisvar á Interail-flakk á þessum árum, þetta var mjög ævintýralegur tími. Svo komum við heim og kláruðum menntó.“ Síðar flutti Regína aftur til Noregs í háskólanám með þáverandi eiginmanni sínum og dótturinni Ernu Maríu sem er fædd 1981. „Ég fór í heimspeki og afbrotafræði og lauk cand. mag prófi í félagsráðgjöf, með afbrotafræðina sem aukagrein. Á þessum tíma fæddist okkur önnur dóttir, hún Ýr.“ Regína starfaði við ýmislegt á námsárunum í Noregi, skúraði til dæmis í ráðhúsi Óslóborgar. „Ég mætti uppúr sex á morgnana og þurrkaði rykið af möppunum,“ rifjar hún upp hlæjandi. „Svo vann ég í Vigelandsparken en mest spennandi var að vera í fjallaseli í Guðbrandsdalnum sumarið 1984. Ýr fæddist í apríl og í lok maí vorum við mætt í selið með dæturnar tvær þar sem við sáum um að mjólka fimmtíu kýr og gæta þeirra. Þarna var bara útikamar og við þurftum að hita allt vatn til þvotta og baða.“Íbúalýðræðið umdeilt Að námi loknu var Regína að vinna á barnaverndarskrifstofu Óslóarborgar um eins árs skeið. „Það var mikil harka í undirheimum Óslóar og mörg erfið mál að fást við,“ rifjar hún upp. „Eftir að ég kom heim 1988 fór ég að vinna hjá Félagsmálastofnun Kópavogs og svo Reykjavíkur.“ Innt eftir samanburðinum við Ósló svarar hún: „Auðvitað eru erfið mál í Reykjavík og hafa orðið æ erfiðari eftir því sem árin líða en á þessum tíma var mikill munur á.“ Ekki hafði Regína þó fengið nóg af Noregi því þangað hélt hún aftur árið 1993 til að starfa sem ráðgjafi á göngudeild barna-og unglingageðdeildar í Askim. En þegar henni bauðst félagamálastjórastaða í Skagafirði sló hún til og flutti til Sauðárkróks í ársbyrjun 1995. „Við bjuggum á Króknum í tvö og hálft ár og kunnum mjög vel við okkur, eiginmaðurinn fékk hinsvegar ekki starf sem honum hentaði fyrir norðan svo við fluttum suður og ég fór að vinna sem framkvæmdastjóri við tilraunaverkefnið Miðgarð í Grafarvogi, það fólst í að samþætta ýmsa þjónustu fagfólks svo sem félagsráðgjafa, skólasálfræðinga, leikskólaráðgjafa og tengja íþrótta- og tómstundamálin við. Yfir Miðgarði var hverfisnefnd Grafarvogs sem fékk ákveðin völd og var fyrsti vísir að auknu íbúalýðræði í borginni. Þetta var mikið frumkvöðlastarf og skemmtilegur tími,“ lýsir Regína sem eftir þetta var fengin í Ráðhúsið til að setja á laggirnar fimm þjónustumiðstöðvar í viðbót og undirbúa stofnun hverfisráða sem bakhjarla. Þá voru lagðar niður stórar stofnanir eins og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Félagsþjónusta Reykjavíkur. „Þetta var gríðarlegt umrót og mörgum var ógnað í þessum breytingum. Við buðum öllum af gömlu stofnunum störf en það varð breyting á starfsumhverfi margra,“ segir Regína. Varstu óvinsæl? „Já, um tíma var ég óvinsæl en nú held ég að almenn ánægja ríki með þetta fyrirkomulag. Það var líka pólitísk kergja í spilinu, R-listinn var við völd en minnihlutinn var algerlega á móti breytingunum. Ég brann hinsvegar fyrir þessu viðfangsefni því ég trúði því að aukið samstarf fagfólks og samráð við borgarbúa myndi bæta þjónustuna.“ Dramatík í Ráðhúsinu Þórólfur Árnason var borgarstjóri þegar hér var komið sögu. Regína segir hann hafa staðið eins og klett við hlið hennar í verkefnunum. „Stuttu síðar var hann hrakinn frá völdum, fórnað útaf olíusamráðinu. Það var mjög dramatískt að sjá á eftir tveimur borgarstjórum meðan verið var að taka þessi mikilvægu skref í stjórnsýslu borgarinnar. Það gerðist nefnilega líka skyndilega að Ingibjörg Sólrún hætti, því einstaka borgarfulltrúar í R listanum voru ósáttir við að hún byði sig fram til Alþingis fyrir Samfylkinguna. Eftir Þórólf tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir við boltanum í Ráðhúsinu. Þá voru þjónustumiðstöðvarnar orðnar að veruleika en minnihlutinn var alltaf á móti þeim og um leið og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók við sem borgarstjóri ákvað hann að færa þær af þjónustu-og rekstrarsviði yfir á velferðarsvið og draga úr vægi þeirra innan stjórnkerfisins. Mér var boðið að starfa áfram en fannst komið gott og ákvað að fara í mastersnám í breytingastjórnun við hagfræðideildina í háskólanum í Aberdeen í Skotlandi.“ Gast þú ekki bara kennt þau fræði þar eftir alla reynsluna? „Ég var allavega með mikla praktíska reynslu. En það var mjög gaman í þessu námi eins og náminu í opinberri stjórnsýslu sem ég var áður búin að fara í gegnum.“ Þegar staða skrifstofustjóra borgarstjóra Reykjavíkur var auglýst laus runnu tvær grímur á Regínu. Þá var Dagur B. Eggertsson orðinn borgarstjóri. „Dagur var mikill talsmaður þjónustumiðstöðvanna og íbúalýðræðis. Mér fannst heillandi að vinna með honum, sótti því um starfið og fékk það, pakkaði niður og kom heim en þá hafði Ólafur F. Magnússon tekið við borgarstjórastarfinu deginum áður. Tjarnarkvartettinn var búinn að vera. Ég hafði fétt þetta til Skotlands en þá var ég búin að pakka, ganga frá íbúðinni og öllum mínum málum.“ Regína segir mikið rót hafa verið innan borgarinnar á þessum tíma. „Borgarstjórar komu og fóru og í stjórnsýslunni var fólk með sterkar skoðanir á hverfavæðingu, bæði með og á móti.“ Starf Regínu fólst í stjórnun skrifstofu borgarstjóra og erlendum samskiptum. „Ég þurfti ekkert að kvarta yfir verkefnaskorti. Það var mikið djöflast í Ólafi F. svo ég segi bara alveg eins og er. Hann hefur oft kvartað yfir því hvað fjölmiðlar hafi verið ágengir og ég get alveg staðfest það.“ Þurftir þú að svara fyrir hann og hans gjörðir? „Ekki pólitískt en það mæddi mikið á skrifstofunni og þetta var erfiður tími fyrir alla.“ Féll fyrir Jóni Gnarr Hvernig leið þér þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við veldissprotanum og Ólafur F. var settur til hliðar? „Hanna Birna kom inn með miklum krafti. Það var bjart yfir henni en hún var ekki búin að vera í starfi nema í örfáar vikur þegar hrunið skall á. Næstu mánuði var blóðugur niðurskurður og varnarbarátta gagnvart öllu kerfinu. Hanna Birna tók á málum af mikilli festu og minnihlutinn, til dæmis Sóley Tómasdóttir og Dagur, stóðu sig mjög vel í að vinna með henni. Þar náðist góð samstaða í að taka á erfiðum málum. Innan sveitarfélaganna hugsaði fólk, eins og allir stjórnendur á þessum tíma: Eigum við fyrir launum um næstu mánaðamót? Þarf að segja fólki upp? Þetta var mikil reynsla.“ Þurftir þú að segja upp fólki? „Sú stefna var tekin að reyna að vernda starfsfólkið eins og hægt var en ráða ekki í stöður sem losnuðu. Á skrifstofu borgarstjóra varð til dæmis um 30% niðurskurður og því ljóst að það þurfti að færa fólk til í störfum og breyta. Auk þess var ég í tengiliðahlutverki gagnvart sviðsstjórum þannig að ég tók þátt í öllu þessu ferli. Hanna Birna hafði fólkið með sér í þessum niðurskurði og það skipti miklu máli. Ég var ákveðin í að hætta þegar þessu kjörtímabili lyki. Fannst það tímabært. Það var komið nýtt afl sem bauð sig fram og ég var ekki sérlega spennt fyrir því, eftir allt umrótið. En í Jóni Gnarr hitti ég hinsvegar fyrir greindan og hlýjan mann sem vildi gera góða hluti og þegar ég fékk beiðni um að vera í eitt ár staðgengill hans og við stjórn Reykjavíkurborgar með honum freistaðist ég til að segja já. Ef satt skal segja þá var ég á leið til viðræðna við bæjarstjórn í bæ einum í Norður-Noregi þar sem ég hafði fengið tilboð um starf framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, þegar þessi beiðni kom. Maðurinn minn er ævarandi þakklátur Jóni,“ segir Regína hlæjandi. „Hann var ekki eins spenntur fyrir að flytja til Norður-Noregs.“ Tímabundin stjórnkerfisbreyting var gerð sem fólst í því að skrifstofustjóri borgarstjóra varð yfirmaður allra sviða í borginni í stað þess að þau heyrðu beint undir borgarstjórann, að sögn Regínu. „Minnihlutinn var ósáttur við þetta fyrirkomulag þannig að enn var róstusamt í pólitíkinni og Jón var þráfaldlega spurður hvort hann væri að afhenda öll sín völd til embættismanna,“ segir Regína og tekur fram að engin launahækkun hafi fylgt hennar auknu ábyrgð. En má ekki segja að Jón hafi afsalað sér völdum? „Nei, en hann var að koma úr skemmtanaiðnaðinum inn á stærsta vinnustað Íslands með átta þúsund starfsmönnum - og kynnast flóknu kerfi sem er eins og að snúa Titanic ef einhverju á að breyta. Hann ákvað að treysta þeim sem fyrir voru og það gerði fólkið sem var með honum líka þannig að þétt samstaða myndaðist. Þetta skipti máli meðan nýtt fólk var að koma sér inn í hlutina því það var ekki bara Jón Gnarr sem var að byrja heldur allir borgarfulltrúarnir í Besta flokknum.“ Meðal verkefna Regínu þetta ár var að undirbúa tillögu að framtíðarstjórnskipulagi borgarinnar sem meðal annars fól í sér fækkun og sameiningu sviða og endurupptöku embættis borgarritara. „Rétt áður en minn ráðningartími rann út sá ég auglýst starf við að koma Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á laggirnar, fannst það góður tími til að læða mér út úr Ráðhúsinu og fékk starfið.“Vinnuþjarkur og krimmaaðdáandi Mikið verk er framundan í skipulagsmálum á Skaganum. „Við verðum að taka miðbæinn okkar í gegn og erum byrjuð á aðaltorginu. Svo verður stór íbúafundur í janúar um sementsverksmiðjusvæðið. Þar þurfum við að hugsa til langs tíma,“ segir bæjarstjórinn sem ásamt bæjarstjórn og íbúum stefnir líka að því að efla atvinnulíf á svæðinu. „Um síðustu helgi var haldinn stefnumótunarfundur um atvinnumál sem á annað hundrað manns kom á sem tókst einstaklega vel,“ segir hún. Hún segir sjálfsmynd bæjarins snúast mikið um sjávarútveg og að mörg öflug fyrirtæki í bænum tengist sjávarútvegi með beinum eða óbeinum hætti eins og HB Grandi, Skaginn, Norðanfiskur, Vignir Jónsson, og Akraborg. Rekstur margra þessara fyrirtækja fari hljótt þó þau séu að gera frábæra hluti, eins og Akraborg sem hafi flutt 13 milljónir dósa af þorsklifur á erlenda markaði í fyrra. Hún hrósar skólunum á svæðinu í hástert og segir mikið lagt upp úr því að manna sem flestar stöður með fagfólki. Það skili sér. „Capacent gerir könnun innan sveitarfélaga árlega og við erum númer tvö á landsvísu yfir ánægða foreldra með leikskóla og númer þrjú með grunnskóla. Í samræmdu prófunum í stærðfræði í 7. bekk voru 14,4% þeirra nemenda sem fengu 10 frá Akranesi þó við eigum bara 2,9% af nemendafjölda landsins. Þegar ég kem úr stærra samfélagi inn í þetta sé ég auðvitað strax hvað hér er frábær þjónusta í skólunum og hversu vel er haldið utan um nemendur. Ýmis stoðþjónusta er algerlega í toppi.“ Í lokin er Regína aðeins spurð út í áhugamálin. Hún hnyklar brýrnar. „Áhugamálin? Mér finnst náttúrlega rosalega gaman í vinnunni. En mér finnst líka gaman að ganga á fjöll og fæ mikla næringu út úr því. Síðan hef ég gaman af að fara á skíði, bæði svigskíði og gönguskíði og er að fikra mig áfram í golfinu. Eiginmaðurinn er á kafi í því og ég á golfsett en er alger byrjandi. Einnig finnst mér gaman að lesa krimma og horfa á krimma. Elska góðan mat og hann er betri þegar maðurinn minn eldar hann en ég.“ Mest lesið Inga ætlar ekki að biðjast afsökunar Innlent Þriggja ára barn ráfaði af leikskólanum og í Bónus Innlent Fjöldi ökumanna sektaður fyrir að leggja ólöglega Innlent „Kemur af sama lager og það sem er selt í partýinu í næsta bæ“ Innlent „Það þarf enginn að vera með vopn nema sérsveitin“ Innlent Spændi upp mosann á krossara Innlent Varnarviðbragð húðarinnar að verða brún í sól Innlent Rússar virðast hafa litlar áhyggjur af hótunum Trump Erlent „Það gæti tekið bara fimmtán mínútur að kála þeim“ Innlent Fagnar áherslum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi Innlent Fleiri fréttir „Það gæti tekið bara fimmtán mínútur að kála þeim“ Maðurinn er fundinn Ekki sekur um að hafa valdið dauða manns í Kiðjabergi Fagnar áherslum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi Ræðukóngurinn talaði í rúman sólarhring Miklar bikblæðingar á Norðurlandi Ræðukóngur Alþingis tekinn tali og varað við bikblæðingum á þjóðvegunum Þriggja ára barn ráfaði af leikskólanum og í Bónus Varnarviðbragð húðarinnar að verða brún í sól „Það þarf enginn að vera með vopn nema sérsveitin“ Hitinn 14 til 28 stig í dag: Vara við því að skilja hundinn eftir í bílnum Fjöldi ökumanna sektaður fyrir að leggja ólöglega Akureyri skelfur vegna jarðhræringa við Grímsey Inga ætlar ekki að biðjast afsökunar Tæpur fjórðungur umræðutímans fór í veiðigjöld Þyrlan kölluð út að sækja veikan farþega á skemmtiferðakipi „Kemur af sama lager og það sem er selt í partýinu í næsta bæ“ Spændi upp mosann á krossara Netið sló út í miðborginni og Hlíðunum Bræður „moka inn“ á límónaðisölu og egg spælt á bíl Sögulegt þing, geðrof eftir meðferð og bongóblíða Dópsalar handteknir sem reyndust dvelja ólöglega á Íslandi Stjórnarandstaðan sakar forseta um alvarlegan trúnaðarbrest Mótmæltu komu „spilltrar“ der Leyen Hvetja fólk til að fara sparlega með vatn Rak landganginn í flugvélina og gerði gat Þagnarbindindi í ræðustól Alþingis Veiðigjaldafrumvarpið samþykkt „Ísland er með öruggustu löndum í heimi“ Aðalsprautan í Pussy Riot fær íslenskan ríkisborgararétt Sjá meira
„Ráðning mín hér á Akranesi var samþykkt í bæjarstjórninni með 9-0 og allar stórar og erfiðar ákvarðanir sem við höfum þurft að taka hafa verið samþykktar með öllum greiddum atkvæðum. Það er öðruvísi en í borginni. Þar er ekki hefð fyrir mikilli samvinnu meiri-og minnihluta. Allt getur orðið að máli. En einn góðan veðurdag verður maður að geta unnið í andrúmslofti sem er meira mannbætandi,“ segir Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi sem starfaði í fimmtán ár við stjórnsýsluna í Reykjavík, þar af tíu í Ráðhúsinu. Síðasta árið var hún yfirmaður allra sviða og staðgengill núverandi borgarstjóra, fyrsta ár hans í embætti. Hún kveðst skilja Jón Gnarr vel þegar hann taki þá ákvörðun að hætta. „Það er þessi harka sem gerir það að verkum að starf stjórnenda verður svo lýjandi. En viðfangsefnin eru auðvitað spennandi, borgin er stór og fjölbreyttur vinnustaður og manni leiðist þar aldrei verkefnalega séð,“ segir hún og bætir við að þar starfi frábært fólk. Tekur líka fram að hún hafi ekki verið orðin þreytt á þeim meirihluta sem var við völd, heldur þessu pólitíska andrúmslofti. „Það komu og fóru átta borgarstjórar á tíu ára tímabili,“ minnir hún á.Hlakkar til hvers vinnudags Við sitjum í makindum á skrifstofunni hennar Regínu á Skaganum, með kaffi og góðgæti á bakka. Málverk prýða veggina og útsýnið út um horngluggann væri milljóna virði ef penslar hefðu komið þar við sögu. Kennileitin Akrafjall og Skarðsheiði - ekki eins og fjólubláir draumar heldur næstum áþreifanleg - og á hina síðuna ólgandi brimið við ströndina því þennan dag er stíf suðvestanátt. Regína kveðst hafa þurft að setja sig inn í marga nýja hluti sem bæjarstjóri þrátt fyrir að hafa hjá Reykjavíkurborg þekkt ágætlega til Akraness í gegnum Faxaflóahafnir og Orkuveituna sem Akraneskaupstaður eigi hluta í. „Þetta er búið að vera spennandi ár. Ég er ánægð með lífið og hlakka til að koma í vinnuna á hverjum einasta degi,“ segir hún brosandi. Hún býr á Akranesi og segir ekkert annað koma til greina en búa í samfélagi við fólkið sem hún sé að vinna fyrir. „Maðurinn minn starfar hjá Advania og tekur strætó milli Akraness og borgarinnar. Honum finnst það ekkert mál,“ segir hún og upplýsir að hann heiti Birgir Pálsson. „Við kynntumst fyrir 22 árum. Hann á eina dóttur, Auði Kolbrá og ég tvær, Ernu Maríu og Ýr. Þær eiga nú allar lögheimili í 101 Reykjavík en Ýr er í skiptinámi í Belgíu.“Seljastúlka í Guðbrandsdal Regína er úr Kópavogi og sleit smábarnsskónum í Birkihlíð. „Afi og amma áttu landskika, ráku þar gróðrarstöð og ræktuðu skóg, ég var mikið í kringum þau enda byggðu foreldrar mínir, þau Ásvaldur Andrésson og Erna María Jóhannsdóttir hús þar skammt frá. Það var yndislegt að alast upp í þessu umhverfi.“ Sextán ára hélt hún til Noregs að vinna á sumarhóteli við Sognefjord. „Ég heillaðist af staðnum og fór þangað aftur sumarið eftir. Útþráin var kviknuð þannig að ég hætti í Menntaskólanum í Kópavogi eftir tvo vetur, fór að vinna á vínberjabúgarði í Frakklandi ásamt vinkonum úr skólanum og síðan skíðahóteli í Geiló í Noregi. Við fórum líka þrisvar á Interail-flakk á þessum árum, þetta var mjög ævintýralegur tími. Svo komum við heim og kláruðum menntó.“ Síðar flutti Regína aftur til Noregs í háskólanám með þáverandi eiginmanni sínum og dótturinni Ernu Maríu sem er fædd 1981. „Ég fór í heimspeki og afbrotafræði og lauk cand. mag prófi í félagsráðgjöf, með afbrotafræðina sem aukagrein. Á þessum tíma fæddist okkur önnur dóttir, hún Ýr.“ Regína starfaði við ýmislegt á námsárunum í Noregi, skúraði til dæmis í ráðhúsi Óslóborgar. „Ég mætti uppúr sex á morgnana og þurrkaði rykið af möppunum,“ rifjar hún upp hlæjandi. „Svo vann ég í Vigelandsparken en mest spennandi var að vera í fjallaseli í Guðbrandsdalnum sumarið 1984. Ýr fæddist í apríl og í lok maí vorum við mætt í selið með dæturnar tvær þar sem við sáum um að mjólka fimmtíu kýr og gæta þeirra. Þarna var bara útikamar og við þurftum að hita allt vatn til þvotta og baða.“Íbúalýðræðið umdeilt Að námi loknu var Regína að vinna á barnaverndarskrifstofu Óslóarborgar um eins árs skeið. „Það var mikil harka í undirheimum Óslóar og mörg erfið mál að fást við,“ rifjar hún upp. „Eftir að ég kom heim 1988 fór ég að vinna hjá Félagsmálastofnun Kópavogs og svo Reykjavíkur.“ Innt eftir samanburðinum við Ósló svarar hún: „Auðvitað eru erfið mál í Reykjavík og hafa orðið æ erfiðari eftir því sem árin líða en á þessum tíma var mikill munur á.“ Ekki hafði Regína þó fengið nóg af Noregi því þangað hélt hún aftur árið 1993 til að starfa sem ráðgjafi á göngudeild barna-og unglingageðdeildar í Askim. En þegar henni bauðst félagamálastjórastaða í Skagafirði sló hún til og flutti til Sauðárkróks í ársbyrjun 1995. „Við bjuggum á Króknum í tvö og hálft ár og kunnum mjög vel við okkur, eiginmaðurinn fékk hinsvegar ekki starf sem honum hentaði fyrir norðan svo við fluttum suður og ég fór að vinna sem framkvæmdastjóri við tilraunaverkefnið Miðgarð í Grafarvogi, það fólst í að samþætta ýmsa þjónustu fagfólks svo sem félagsráðgjafa, skólasálfræðinga, leikskólaráðgjafa og tengja íþrótta- og tómstundamálin við. Yfir Miðgarði var hverfisnefnd Grafarvogs sem fékk ákveðin völd og var fyrsti vísir að auknu íbúalýðræði í borginni. Þetta var mikið frumkvöðlastarf og skemmtilegur tími,“ lýsir Regína sem eftir þetta var fengin í Ráðhúsið til að setja á laggirnar fimm þjónustumiðstöðvar í viðbót og undirbúa stofnun hverfisráða sem bakhjarla. Þá voru lagðar niður stórar stofnanir eins og Fræðslumiðstöð Reykjavíkur og Félagsþjónusta Reykjavíkur. „Þetta var gríðarlegt umrót og mörgum var ógnað í þessum breytingum. Við buðum öllum af gömlu stofnunum störf en það varð breyting á starfsumhverfi margra,“ segir Regína. Varstu óvinsæl? „Já, um tíma var ég óvinsæl en nú held ég að almenn ánægja ríki með þetta fyrirkomulag. Það var líka pólitísk kergja í spilinu, R-listinn var við völd en minnihlutinn var algerlega á móti breytingunum. Ég brann hinsvegar fyrir þessu viðfangsefni því ég trúði því að aukið samstarf fagfólks og samráð við borgarbúa myndi bæta þjónustuna.“ Dramatík í Ráðhúsinu Þórólfur Árnason var borgarstjóri þegar hér var komið sögu. Regína segir hann hafa staðið eins og klett við hlið hennar í verkefnunum. „Stuttu síðar var hann hrakinn frá völdum, fórnað útaf olíusamráðinu. Það var mjög dramatískt að sjá á eftir tveimur borgarstjórum meðan verið var að taka þessi mikilvægu skref í stjórnsýslu borgarinnar. Það gerðist nefnilega líka skyndilega að Ingibjörg Sólrún hætti, því einstaka borgarfulltrúar í R listanum voru ósáttir við að hún byði sig fram til Alþingis fyrir Samfylkinguna. Eftir Þórólf tók Steinunn Valdís Óskarsdóttir við boltanum í Ráðhúsinu. Þá voru þjónustumiðstöðvarnar orðnar að veruleika en minnihlutinn var alltaf á móti þeim og um leið og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tók við sem borgarstjóri ákvað hann að færa þær af þjónustu-og rekstrarsviði yfir á velferðarsvið og draga úr vægi þeirra innan stjórnkerfisins. Mér var boðið að starfa áfram en fannst komið gott og ákvað að fara í mastersnám í breytingastjórnun við hagfræðideildina í háskólanum í Aberdeen í Skotlandi.“ Gast þú ekki bara kennt þau fræði þar eftir alla reynsluna? „Ég var allavega með mikla praktíska reynslu. En það var mjög gaman í þessu námi eins og náminu í opinberri stjórnsýslu sem ég var áður búin að fara í gegnum.“ Þegar staða skrifstofustjóra borgarstjóra Reykjavíkur var auglýst laus runnu tvær grímur á Regínu. Þá var Dagur B. Eggertsson orðinn borgarstjóri. „Dagur var mikill talsmaður þjónustumiðstöðvanna og íbúalýðræðis. Mér fannst heillandi að vinna með honum, sótti því um starfið og fékk það, pakkaði niður og kom heim en þá hafði Ólafur F. Magnússon tekið við borgarstjórastarfinu deginum áður. Tjarnarkvartettinn var búinn að vera. Ég hafði fétt þetta til Skotlands en þá var ég búin að pakka, ganga frá íbúðinni og öllum mínum málum.“ Regína segir mikið rót hafa verið innan borgarinnar á þessum tíma. „Borgarstjórar komu og fóru og í stjórnsýslunni var fólk með sterkar skoðanir á hverfavæðingu, bæði með og á móti.“ Starf Regínu fólst í stjórnun skrifstofu borgarstjóra og erlendum samskiptum. „Ég þurfti ekkert að kvarta yfir verkefnaskorti. Það var mikið djöflast í Ólafi F. svo ég segi bara alveg eins og er. Hann hefur oft kvartað yfir því hvað fjölmiðlar hafi verið ágengir og ég get alveg staðfest það.“ Þurftir þú að svara fyrir hann og hans gjörðir? „Ekki pólitískt en það mæddi mikið á skrifstofunni og þetta var erfiður tími fyrir alla.“ Féll fyrir Jóni Gnarr Hvernig leið þér þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við veldissprotanum og Ólafur F. var settur til hliðar? „Hanna Birna kom inn með miklum krafti. Það var bjart yfir henni en hún var ekki búin að vera í starfi nema í örfáar vikur þegar hrunið skall á. Næstu mánuði var blóðugur niðurskurður og varnarbarátta gagnvart öllu kerfinu. Hanna Birna tók á málum af mikilli festu og minnihlutinn, til dæmis Sóley Tómasdóttir og Dagur, stóðu sig mjög vel í að vinna með henni. Þar náðist góð samstaða í að taka á erfiðum málum. Innan sveitarfélaganna hugsaði fólk, eins og allir stjórnendur á þessum tíma: Eigum við fyrir launum um næstu mánaðamót? Þarf að segja fólki upp? Þetta var mikil reynsla.“ Þurftir þú að segja upp fólki? „Sú stefna var tekin að reyna að vernda starfsfólkið eins og hægt var en ráða ekki í stöður sem losnuðu. Á skrifstofu borgarstjóra varð til dæmis um 30% niðurskurður og því ljóst að það þurfti að færa fólk til í störfum og breyta. Auk þess var ég í tengiliðahlutverki gagnvart sviðsstjórum þannig að ég tók þátt í öllu þessu ferli. Hanna Birna hafði fólkið með sér í þessum niðurskurði og það skipti miklu máli. Ég var ákveðin í að hætta þegar þessu kjörtímabili lyki. Fannst það tímabært. Það var komið nýtt afl sem bauð sig fram og ég var ekki sérlega spennt fyrir því, eftir allt umrótið. En í Jóni Gnarr hitti ég hinsvegar fyrir greindan og hlýjan mann sem vildi gera góða hluti og þegar ég fékk beiðni um að vera í eitt ár staðgengill hans og við stjórn Reykjavíkurborgar með honum freistaðist ég til að segja já. Ef satt skal segja þá var ég á leið til viðræðna við bæjarstjórn í bæ einum í Norður-Noregi þar sem ég hafði fengið tilboð um starf framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, þegar þessi beiðni kom. Maðurinn minn er ævarandi þakklátur Jóni,“ segir Regína hlæjandi. „Hann var ekki eins spenntur fyrir að flytja til Norður-Noregs.“ Tímabundin stjórnkerfisbreyting var gerð sem fólst í því að skrifstofustjóri borgarstjóra varð yfirmaður allra sviða í borginni í stað þess að þau heyrðu beint undir borgarstjórann, að sögn Regínu. „Minnihlutinn var ósáttur við þetta fyrirkomulag þannig að enn var róstusamt í pólitíkinni og Jón var þráfaldlega spurður hvort hann væri að afhenda öll sín völd til embættismanna,“ segir Regína og tekur fram að engin launahækkun hafi fylgt hennar auknu ábyrgð. En má ekki segja að Jón hafi afsalað sér völdum? „Nei, en hann var að koma úr skemmtanaiðnaðinum inn á stærsta vinnustað Íslands með átta þúsund starfsmönnum - og kynnast flóknu kerfi sem er eins og að snúa Titanic ef einhverju á að breyta. Hann ákvað að treysta þeim sem fyrir voru og það gerði fólkið sem var með honum líka þannig að þétt samstaða myndaðist. Þetta skipti máli meðan nýtt fólk var að koma sér inn í hlutina því það var ekki bara Jón Gnarr sem var að byrja heldur allir borgarfulltrúarnir í Besta flokknum.“ Meðal verkefna Regínu þetta ár var að undirbúa tillögu að framtíðarstjórnskipulagi borgarinnar sem meðal annars fól í sér fækkun og sameiningu sviða og endurupptöku embættis borgarritara. „Rétt áður en minn ráðningartími rann út sá ég auglýst starf við að koma Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja á laggirnar, fannst það góður tími til að læða mér út úr Ráðhúsinu og fékk starfið.“Vinnuþjarkur og krimmaaðdáandi Mikið verk er framundan í skipulagsmálum á Skaganum. „Við verðum að taka miðbæinn okkar í gegn og erum byrjuð á aðaltorginu. Svo verður stór íbúafundur í janúar um sementsverksmiðjusvæðið. Þar þurfum við að hugsa til langs tíma,“ segir bæjarstjórinn sem ásamt bæjarstjórn og íbúum stefnir líka að því að efla atvinnulíf á svæðinu. „Um síðustu helgi var haldinn stefnumótunarfundur um atvinnumál sem á annað hundrað manns kom á sem tókst einstaklega vel,“ segir hún. Hún segir sjálfsmynd bæjarins snúast mikið um sjávarútveg og að mörg öflug fyrirtæki í bænum tengist sjávarútvegi með beinum eða óbeinum hætti eins og HB Grandi, Skaginn, Norðanfiskur, Vignir Jónsson, og Akraborg. Rekstur margra þessara fyrirtækja fari hljótt þó þau séu að gera frábæra hluti, eins og Akraborg sem hafi flutt 13 milljónir dósa af þorsklifur á erlenda markaði í fyrra. Hún hrósar skólunum á svæðinu í hástert og segir mikið lagt upp úr því að manna sem flestar stöður með fagfólki. Það skili sér. „Capacent gerir könnun innan sveitarfélaga árlega og við erum númer tvö á landsvísu yfir ánægða foreldra með leikskóla og númer þrjú með grunnskóla. Í samræmdu prófunum í stærðfræði í 7. bekk voru 14,4% þeirra nemenda sem fengu 10 frá Akranesi þó við eigum bara 2,9% af nemendafjölda landsins. Þegar ég kem úr stærra samfélagi inn í þetta sé ég auðvitað strax hvað hér er frábær þjónusta í skólunum og hversu vel er haldið utan um nemendur. Ýmis stoðþjónusta er algerlega í toppi.“ Í lokin er Regína aðeins spurð út í áhugamálin. Hún hnyklar brýrnar. „Áhugamálin? Mér finnst náttúrlega rosalega gaman í vinnunni. En mér finnst líka gaman að ganga á fjöll og fæ mikla næringu út úr því. Síðan hef ég gaman af að fara á skíði, bæði svigskíði og gönguskíði og er að fikra mig áfram í golfinu. Eiginmaðurinn er á kafi í því og ég á golfsett en er alger byrjandi. Einnig finnst mér gaman að lesa krimma og horfa á krimma. Elska góðan mat og hann er betri þegar maðurinn minn eldar hann en ég.“
Mest lesið Inga ætlar ekki að biðjast afsökunar Innlent Þriggja ára barn ráfaði af leikskólanum og í Bónus Innlent Fjöldi ökumanna sektaður fyrir að leggja ólöglega Innlent „Kemur af sama lager og það sem er selt í partýinu í næsta bæ“ Innlent „Það þarf enginn að vera með vopn nema sérsveitin“ Innlent Spændi upp mosann á krossara Innlent Varnarviðbragð húðarinnar að verða brún í sól Innlent Rússar virðast hafa litlar áhyggjur af hótunum Trump Erlent „Það gæti tekið bara fimmtán mínútur að kála þeim“ Innlent Fagnar áherslum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi Innlent Fleiri fréttir „Það gæti tekið bara fimmtán mínútur að kála þeim“ Maðurinn er fundinn Ekki sekur um að hafa valdið dauða manns í Kiðjabergi Fagnar áherslum ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegi Ræðukóngurinn talaði í rúman sólarhring Miklar bikblæðingar á Norðurlandi Ræðukóngur Alþingis tekinn tali og varað við bikblæðingum á þjóðvegunum Þriggja ára barn ráfaði af leikskólanum og í Bónus Varnarviðbragð húðarinnar að verða brún í sól „Það þarf enginn að vera með vopn nema sérsveitin“ Hitinn 14 til 28 stig í dag: Vara við því að skilja hundinn eftir í bílnum Fjöldi ökumanna sektaður fyrir að leggja ólöglega Akureyri skelfur vegna jarðhræringa við Grímsey Inga ætlar ekki að biðjast afsökunar Tæpur fjórðungur umræðutímans fór í veiðigjöld Þyrlan kölluð út að sækja veikan farþega á skemmtiferðakipi „Kemur af sama lager og það sem er selt í partýinu í næsta bæ“ Spændi upp mosann á krossara Netið sló út í miðborginni og Hlíðunum Bræður „moka inn“ á límónaðisölu og egg spælt á bíl Sögulegt þing, geðrof eftir meðferð og bongóblíða Dópsalar handteknir sem reyndust dvelja ólöglega á Íslandi Stjórnarandstaðan sakar forseta um alvarlegan trúnaðarbrest Mótmæltu komu „spilltrar“ der Leyen Hvetja fólk til að fara sparlega með vatn Rak landganginn í flugvélina og gerði gat Þagnarbindindi í ræðustól Alþingis Veiðigjaldafrumvarpið samþykkt „Ísland er með öruggustu löndum í heimi“ Aðalsprautan í Pussy Riot fær íslenskan ríkisborgararétt Sjá meira