Skoðun

PISA vangaveltur

Jórunn Tómasdóttir skrifar
Það er gott til þess að vita að nemendum líður vel í skólanum okkar.

Það er gott til þess að vita að einelti hefur minnkað í skólanum okkar.

Það er gott til þess að vita að nemendur okkar njóta jafnréttis til náms.

Annað er ekki eins gott.

Það er ekki til nein patentlausn á vanda skólakerfisins en það eru örugglega til ráð til úrbóta. Í mörg ár hafa fjölmargir skólamenn og -konur bent á meinin og komið með tillögur sem gætu orðið til bóta en ætíð verið á eintali við tómið. Það hlustar enginn.

Þó svo faglegt, fallegt og þróttmikið starf sé unnið í skólum landsins og allir séu að vinna af alúð og metnaði þá fær skólakerfið okkar falleinkunn enn einu sinni. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd og bregðast við henni. Það sem þarf að gera er augljóst. Það þarf að leggja til hliðar pólitískan rétttrúnað, sem aldrei hefur náð að skapa gott kerfi, setjast niður, skoða, greina og meta vandann ískalt, setja metnaðarfull og raunhæf markmið og þróa ferli og leiðir að þeim.

Við verðum að spyrja okkur að því, hvað við eigum við með orðinu menntun – er allt fólk með prófgráðu menntað fólk? – hvernig menntakerfi við viljum hafa, hvað við viljum að börnin okkar læri, hvað við viljum að börnin okkar kunni að námi loknu. Hvernig einstaklinga viljum við móta til að skapa hér mennskt, vel menntað samfélag.

Lifandi afl

Ef við viljum í einlægni og einurð skóla án aðgreiningar og skóla fyrir alla verðum við að axla þá ábyrgð og skapa viðunandi námsumhverfi fyrir alla nemendur og kennara. Ef við viljum í einlægni og einurð skapa góðan skóla verðum við að axla þá ábyrgð og bjóða kennurum mannsæmandi laun. Kennarastarfið þarf að verða eftirsóknarvert ekki bara vegna sumarleyfisins. Það þarf að skoða inntak kennaranámsins, auka vægi íslensku, stærðfræði og raungreina. Aðferðafræðin má ekki drekkja fagkunnáttunni í kennaranáminu.

Það þarf að skoða námskrár skólanna, námslýsingar og námsmarkmið. Það þarf að spyrja hvort eðlilegt sé að það sé óhindrað, frjálst flæði nemenda úr grunnskóla yfir í framhaldsskóla sem skapar síðan vanda framhaldsskólans bæði hvað varðar fall nemenda og brottfall. Það þarf að skoða hvort grunnskólarnir líði fyrir það að vera í forsjá sveitarfélaganna. Það þarf að skoða hvort skólinn sé í takt við þá veröld sem hann hrærist í.

Spurningarnar eru mýmargar og fjölmargt sem þarf að gaumgæfa. En eitt er alveg víst. Skólinn batnar ekki við það, að sífellt sé verið að krukka í hann eingöngu með sparnað að leiðarljósi. Hann batnar ekki heldur við það að kennarar séu hafðir á ósæmandi launum eftir langt og strangt háskólanám. Skólinn þarf að vera lifandi afl, síkraumandi deigla, spegill vaxandi og metnaðarfulls samfélags. Skólinn þarf að njóta virðingar og nám þarf að vera eftirsóknarvert. Skólinn þarf að sinna þörfum og áhuga allra sinna nemenda. Allt kostar þetta mikla vinnu, mikinn metnað, mikið áræði, mikinn áhuga, mikla fagmennsku. Og ekki hvað síst, peninga.




Skoðun

Sjá meira


×