Innlent

Þurfum á dýragörðum að halda

Símon Birgisson skrifar
Gamla Ísbjarnargryfjan í Sædýrasafninu er í dag púttvöllur.
Gamla Ísbjarnargryfjan í Sædýrasafninu er í dag púttvöllur. Fréttablaðið/GVA
Sædýrasafnið, Sædýrasafnið. Apar, ljón og ísbirnir, Sædýrasafnið.“ Þannig hljómuðu auglýsingar Sædýrasafnsins á áttunda áratugnum þegar starfsemi þessa sérstaka dýragarðs stóð í blóma. Auk þess að vera geysivinsælt meðal almennings fjármagnaði safnið rekstur sinn með því að fanga háhyrninga og selja í erlenda dýragarða. Þannig rekur Keiko uppruna sinn til Sædýrsafnsins í Hafnarfirði.

Það var Jón Kr. Gunnarsson sem stofnaði Sædýrasafnið 1969 ásamt félögum í Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði. Ragnhildur Jónsdóttir, dóttir hans, segist nánast hafa alist upp í garðinum en hún hefur ekki heimsótt svæðið síðan Sædýrasafninu var loka árið 1987. Hún féllst á að heimsækja garðinn ásamt blaðamanni og rifja upp sögu hans en Sædýrasafnið hefur aftur komist í umræðuna vegna háhyrningsins Tilikum sem varð þremur þjálfurum að bana og leikur aðalhlutverk í myndinni Blackfish.





Ævintýraleg aðsókn

Sædýrasafnið var neðarlega í Holtinu í Hafnarfirði gegnt Álverinu. Fólk tók strætó upp á Holtið og labbaði svo niður að safninu. „Stundum var samt ófært upp á Holt og ég man að pabbi labbaði einu sinni úr miðbænum upp í garðinn til að gefa dýrunum á jóladag. Þau þurftu jú að fá að borða eins og aðrir,“ segir Ragnhildur á leiðinni að garðinum.

Það hefur margt breyst. Byggðin er orðin þéttari og golfvöllurinn hefur breitt úr sér. Þegar golfklúbburinn Keilir stækkaði tók hann nokkur af gömlu húsum Sædýrasafnsins í notkun. Byggingin þar sem háhyrningarnir voru geymdir og stundum hafðir til sýnis og ísbjarnargryfjan eru nú púttvellir. „Það hefur svo mikið breyst,“ segir Ragnhildur. Það eru ein 25 ár síðan hún kom hingað síðast. Nú elta menn hvíta golfbolta en þá mátti sjá hreindýr og geitur á beit, ísbirni og ljón. 

Inni í gömlu háhyrningabyggingunni eru nú skrifstofur og púttvöllur. Þarna var Tilikum hafður til sýnis og líklega dvaldi Keiko þar um stund áður en hann var seldur í erlendan dýragarð. „Ég man nú lítið eftir þeim, allavega ekki svona með nafni,“ segir Ragnhildur og hlær. Hún segir að háhyrningarnir hafi dregið að fjölda gesta. Þó ekki eins marga og tígrisdýrin sem voru til sýnis í safninu um hálfs árs skeið. „Það komu tugþúsundir til að berja tígrisdýrin augun. Þetta var algjört einsdæmi á Íslandi á þeim tíma og örugglega enn þann dag í dag.“

Aðsókn að safninu var oft með ólíkindum. Stundum heimsóttu milli 60 og 90 þúsund manns safnið á ári þegar Íslendingar voru talsvert færri en í dag.





Leifar af apaskít

Í einu af útihúsunum sem golfklúbburinn Keilir notar nú sem verkfærageymslu eru enn skýr ummerki um dýragarðinn. Þarna voru ljónin til sýnis og aparnir, sem vöktu mikla kátínu gesta. Óskar Kristinsson, starfsmaður Keilis, tekur á móti okkur. Hann bendir glettinn upp í loft á gamlar minjar. „Þetta er apaskítur sem þeir hentu upp í loft og festist og er þarna enn í dag,“ segir hann. „Við höfum ekki kunnað við að hreinsa hann. Þetta eru fornminjar.“

Frá apahúsinu löbbum við að ísbjarnargryfjunni. Ragnhildur segir að virtur landslagsarkitekt hafi verið fenginn til að teikna hana upp. Þarna gat fólk horft á ísbirnina en í dag hefur verið fyllt upp í gryfjuna. „Ísbjarnargryfjan þótti ein sú besta í Evrópu, kannski fallegust líka,“ segir Ragnhildur og hallar sér fram á handriðið og lokar augunum. Eitt augnablik er líkt og garðurinn lifni aftur við. Svo minnir rokið okkur á hvar við erum. Á slóðum minninga um liðna tíð.





Dásamlegt umhverfi

Við yfirgefum garðinn og setjumst niður í Hellisgerði þar sem Ragnhildur rekur miðstöð fyrir álfa og huldufólk. Þar flettir hún stóru albúmi, myndum úr sögu garðsins. Sérstaka athygli vekja háhyrningarnir og auðvitað Keiko – sem um tíma var frægasti Íslendingur í heimi. Jón, faðir Ragnhildar lést árið 2000, en árið áður en hann lést barðist hann gegn því að Keiko yrði fluttur aftur til landsins. Ein grein eftir hann vakti landsathygli. Hann sagði að Keikó væri jafngildi 66 þúsund kjötbolla sem hægt væri að senda til Kenýa og fæða hungraðan heim. 

„Ég man að Seaworld hafði samband við pabba og hann útskýrði fyrir þeim að þetta væri feigðarflan – í raun grimmd við dýrið sem væri orðið vant umhyggju og að fá sitt fóður úr hendi manna. Háhyrningar eru hópdýr, eins og úlfar, og þeir hleypa ekki ókunnugu dýri inn í hjörðina. Keiko átti aldrei sjens að komast aftur inn í samfélag háhyrninga. Þarna réðu peningar og markaðslögmálin ferðinni. Þetta sagði pabbi við þá og þeir höfðu ekki samband aftur.“

Ég spyr Ragnhildi að lokum hvernig tilfinning það hafi verið að heimsækja aftur garðinn sem var svo stór hluti af hennar lífi en tilheyrir nú fortíðinni. „Það var skrítið að koma þangað. Gras yfir öllu og húsin breytt. Þarna var alltaf allt fullt af lífi, dýr á beit og börn út um allt. Það var dásamlegt að fá að alast upp í þessu umhverfi. Ómetanlegt,“ segir Ragnhildur.

Dýragarðar nauðsynlegir

Reglulega er saga Sædýrasafnins í Hafnarfirði rifjuð upp. Nú síðast þegar Tilikum komst í heimsfréttirnar. Yfirleitt eru það neikvæðu augnablikin sem dregin eru fram í dagsljósið. Til að mynda þegar gestur safnsins henti flösku í ísbjarnargryfjuna. Ísbjörninn steig á brotna flöskuna, fékk blóðeitrun og lést skömmu síðar. Eða þegar mikið frost varð þess valdandi að tveir háhyrningar fengu lungnabólgu og létust. 

„Ísbjörninn fékk lyf og læknismeðferð en það dugði ekki til. Hann lést skömmu síðar og það sýnir kannski hve viðkvæm náttúran er. Að ein gosflaska geti fellt þetta stóra og hrausta dýr,“ segir Ragnhildur og heldur áfram: „Það má ekki setja þá mælikvarða og reglur sem við búum við í dag á hluti í fortíðinni. Ef ekki væri fyrir dýragarða væri þekking manna og virðing fyrir dýrum mun minni í dag. Ein aðalástæðan fyrir þeirri virðingu sem í dag er borin fyrir háhyrningum er af því að þeir hafa verið hafðir til sýnis. Fólk hefur séð mikilfengleika þeirra og notið samvista við dýrin. Bróðir minn, sem þjálfaði háhyrninga í fjölda ára, sagðist líta á háhyrninga í dýragörðum sem eins konar sendiherra sinnar tegundar. Og í langflestum dýragörðum í heiminum fer afar vel um dýrin og þau gleðja bæði fullorðna og börn.“

Ragnhildur segir borgarsamfélagið hafa skapað ákveðna fjarlægð á náttúruna. „Það er alltaf lögð áherslu á meiri steypu og minna líf. Sædýrasafnið gladdi hjörtu þúsunda Íslendinga á tímum þar sem afþreying var af mun skornari skammti en í dag. Við höfum sjaldan þurft jafn mikið á dýragörðum að halda eins og nú. Þar sem börn fá tækifæri til að virða fyrir sér dýrin og snerta.“

Stofnuðu safnið í fjáröflunarskyni

Jón Kr., faðir Ragnhildar, var skáti í Hafnarfirði og líka í Hjálparsveit skáta. Upphaf Sædýrasafnsins má rekja til þess þegar nokkrir félagar í Hjálparsveitinni héldu fiskisýningu í fjáröflunarskyni fyrir skátana. Það gekk svo vel að í framhaldinu stofnuðu félagarnir Sædýrasafnið sem sjálfseignarstofnun.

Árið 1976 varð breyting á starfi safnsins. Þá hóf Sædýrasafnið að veiða háhyrninga sem seldir voru í erlenda dýragarða og voru einnig til sýnis í safninu. Bæði Keikó og Tilikum voru fangaðir á þessum tíma. Upp úr 1980 þrengdist að rekstrinum. Samningar við erlenda dýragarða stóðust ekki og útgerðin kostaði sitt auk þess sem ráðist hafði verið í dýrar endurbætur. Safnið stefndi í þrot árið 1980 en eftir árangurslausar tilraunir til að endurvekja starfsemina var því endanlega lokað árið 1987.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×