Innlent

Borgin hætt við 300 milljóna hækkun

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Til stóð að hækka gjaldskrá leikskóla um allt að 11,5 prósent um áramótin en ekkert verður af því.
Til stóð að hækka gjaldskrá leikskóla um allt að 11,5 prósent um áramótin en ekkert verður af því.
„Við höfum rætt við verkalýðshreyfinguna og Samtök atvinnulífsins og metum það svo að það sé breið samstaða um að reyna að sporna við verðbólgu með samstilltu átaki.“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs þar sem ákveðið var í gær að hætta við hækkanir á gjaldskrám.

Að sögn Dags verða stofnanir borgarinnar af um 300 milljóna króna tekjum vegna þessa. Þá upphæð verði að bæta þeim „miðlægt“ úr borgarsjóði.

„Við munum hafa óbreytta krónutölu í gjaldskránum,“ segir Dagur. Ekkert á að verða af áður áformuðum hækkunum á gjaldskrám vegna leikskóla, skólamáltíða, frístundaheimila, bókasafnsskírteina, sundlaugakorta og vegna þjónustu sem velferðarsvið Reykjavíkurborgar veitir.

Dagur B. Eggertsson.
„Við fögnum því að nú sé hlustað á gagnrýni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum,“ segir Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti sjálfstæðismanna. Hann hafi gagnrýnt gjaldskrárhækkanirnar harðlega í borgarstjórn.

„Ég benti á þau efnahagslegu áhrif sem hækkanirnar myndu hafa, bæði fyrir verðlagsþróun og yfirstandandi kjarasamninga en einnig þau beinu áhrif sem þær myndu hafa fyrir fjárhag heimilinna í borginni. Undir okkar gagnrýni í borgarstjórn tóku aðilar vinnumarkaðarins og fjármálaráðherra,“ segir Júlíus.

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Dagur segir fulltrúa meirihlutans hafa hlustað á gagnrýni. „Það eru útbreiddar áhyggjur af því að ef allir gera eins og venjulega, að taka hækkanir á verðlagi inn í sínar gjaldskrár eins og vant er, þá leiðir sú vanahugsun til sjálfkrafa verðbólgu,“ segir formaður borgarráðs og viðurkennir að þetta hafi einmitt verið gert í fjárhagsáætlun borgarinnar.

Júlíus segir meirihlutann hafa gert alvarleg mistök. „Ég er þess fullviss að ef sjálfstæðismenn hefðu ekki haldið vöku sinni og lagt fram útreikninga um áhrif þessara gjaldskrárhækkana á heimilin í borginni að þá hefði þetta siglt hjá án þess það hefði vakið mikla athygli.“

Dagur segir að í baráttu við verðbólgu hafi allir svolítið verið að bíða eftir öllum. „Við tökum þá áhættu að taka frumkvæðið. Leiðangurinn lukkast ekki nema allir séu með. En einhver verður að byrja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×