Viðskipti innlent

Olíuiðnaðurinn hverfur í bili

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Færeyska olíufélagið Atlantic Petroleum hefur farið fram á afskráningu úr Kauphöll Íslands (Nasdaq OMX Iceland).

Í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær kemur fram að stefnt sé á skráningu í Kauphöllinni í Ósló í Noregi og að hún gangi í gegn í desember næstkomandi.

Aðalskráning Atlantic Petroleum er í kauphöllinni hér, en félagið er einnig skráð í kauphöll Nasdaq OMX í Kaupmannahöfn.

Eftir breytingu á aðalskráning að vera í Kaupmannahöfn. Samkvæmt upplýsingum frá Kauphöll Íslands hefur skráningarnefnd Kauphallarinnar ekki enn tekið afstöðu til afskráningar Atlantic Petroleum úr Kauphöllinni og er ákvörðunarferlið sagt geta tekið nokkra daga.

Myndin er frá skráningu Atlantic Petroleum í Kauphöll Íslands á vordögum 2005.
„Bréf félagsins voru sett á athugunarlista í ljósi tilkynningarinnar,“ segir í svörum Kauphallar. Komi til afskráningar dettur félagið út úr Heildarvísitölu Aðalmarkaðar og færeysku vísitölunni. „Og þar sem þetta er eina olíufyrirtækið á markaði, dytti sú atvinnugrein af markaði í bili.“ 

Þá kemur fram að kauphallarfólk sé stolt af því að hafa verið hluti af vexti félagsins síðan 2005. „Gjaldeyrishöftin gera það hins vegar að verkum að félagið getur ekki sótt nýtt fjármagn á íslenska markaðnum. Við óskum þeim góðs gengis í framtíðinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×