Skoðun

Forgangsröðun í skipulagi borgarinnar

Kristinn Karl Brynjarsson skrifar
Við gerð aðalskipulags þarf að forgangsraða í þágu ungra fjölskyldna. Þétting byggðar á Hampiðjureit, Þverholti eða við Skúlagötu, fellur vart undir slíka forgangsröðun. Enda verða þessir staðir seint taldir barnvænir. Íbúðir á þessum svæðum henta því betur ungu barnlausu fólki eða þá eldra fólki sem á uppkomin börn. Sama má reyndar segja um íbúðir á slippsvæðinu. Hins vegar gætu íbúðir á Lýsisreitnum verið á mörkum þess að vera í barnvænu umhverfi og henta þar af leiðandi ungu fólki með börn.

Forgangsröðun í þágu ungra fjölskyldna á því að stærstum hluta að ganga út á það að setja meiri kraft í uppbyggingu nýrra íbúðahverfa, eins og t.d. Úlfarsárdals. Ásamt því að hugað verði að nýjum svæðum til uppbyggingar, eins og Geldinganesi. Enda lítið svigrúm til þéttingar byggðar í þágu ungra fjölskyldna í rótgrónum barnvænum hverfum borgarinnar.

Við gerð aðalskipulags ber að hafa í huga, að miðbærinn er bara eitt af mörgum hverfum borgarinnar. Engu að síður er miðbærinn án efa það hverfi borgarinnar sem hvað flestir borgarbúar og reyndar landsmenn allir sækja ýmsa þjónustu til. Að því leyti má segja að miðbærinn hafi sérstöðu umfram önnur hverfi borgarinnar.

Ekki góður kostur

Flutningur á stofnunum sem þjóna eiga öllum landsmönnum úr miðborginni í úthverfin er því ekki góður kostur. Enda tryggir nálægð þeirra stofnana við flugvöllinn í Vatnsmýri það, að það landsbyggðarfólk er kemur með flugi og sækir þjónustu þeirra, geti gert það á sem skjótastan og hagkvæmastan hátt.

Hraða þarf í miðborginni niðurrifi þeirra húsa er rífa á og hefja strax í kjölfarið byggingu á þeim húsum sem í staðinn eiga að rísa á viðkomandi lóð. Einnig þarf að tryggja það að miðbærinn sé aðlaðandi og stuðla að því að þar þrífist sem fjölbreyttust starfsemi. Aðgengi sé þar fyrir alla og bílastæðamál séu í toppstandi.

Við gerð aðalskipulags þarf að tryggja atvinnuuppbyggingu. Hefja þarf hið snarasta, undirbúning og uppbyggingu nýrra svæða undir atvinnulóðir. Nokkrum lóðum mætti úthluta á svæðinu á milli athafnasvæða Eimskipa og Samskipa. Einnig mætti huga að frekari fyllingum við Örfirisey og fylla jafnvel út í Akurey. Enda mjög aðgrunnt þar á milli. Flutningur Björgunar, steypustöðva og jafnvel fleiri fyrirtækja upp á Álfsnes tryggði svo nokkrar atvinnulóðir til viðbótar á þeim svæðum sem þessi fyrirtæki eru nú.

Í kjölfar lagningar Sundabrautar og uppbygginu nýs hverfis á Geldinganesi, yrði svo Álfsnesið og jafnvel Esjumelar enn fýsilegri kostur fyrir fyrirtæki að vera með starfsemi sína á.

Við gerð aðalskipulags þarf að tryggja aukið umferðaröryggi. Byggja þarf mislæg gatnamót við fjölförnustu gatnamótin sem ekki enn hafa verið gerð mislæg. Fyrst þar í röðinni væru gatnamótin Miklubraut – Kringlumýrabraut og síðar Miklubraut – Grensásvegur. Víða má svo einnig lengja beygjuakreinar, hanna betur af- og aðreinar stofnbrauta og jafnvel bæta við akreinum þar sem þess er kostur, svo umferðin flæði betur.




Skoðun

Sjá meira


×