Skoðun

Allir dagar eru öryggisdagar

Reynir Jónsson skrifar
Öryggisdagar Strætó og VÍS hefjast í dag. Þetta er í fjórða sinn sem dagarnir eru haldnir og reynslan sýnir, svo ekki verður um villst, að átak sem þetta skilar verulegum árangri. Árið 2010 voru skráð 157 aksturstjón hjá Strætó, en árið 2012 hafði þeim fækkað niður í 73, eða um rúmlega helming. Þetta sýnir okkur að þegar allir leggjast á eitt við að fækka slysum, þá fækkar þeim.

Árangurinn er enn eftirtektarverðari í ljósi þess að árið 2012 óku vagnar Strætó mun fleiri kílómetra á götum höfuðborgarsvæðisins en árið 2010, þjónustutími var lengri og farþegum hafði fjölgað mikið. Fækkun slysa á sama tíma ber því vott um þann góða árangur sem vagnstjórar hafa náð þegar kemur að öryggi í umferðinni.

En umferðaröryggi er ekki átaksverkefni. Við þurfum að sýna árvekni og vinna saman að því að fækka slysum alla daga ársins. Þar ganga atvinnubílstjórar á undan með góðu fordæmi og vagnstjórar Strætó hafa sýnt það á síðustu árum að hægt er að fækka slysum. Við getum verið stolt af þeim árangri sem náðst hefur, en um leið er möguleiki á að gera enn betur.

Það má þó ekki gleyma því að við berum öll ábyrgð í umferðinni. Fækkun slysa verður trauðla náð nema allir ökumenn leggist á eitt. Við munum gera okkar, en við biðlum til allra um að taka þátt í þessu verkefni með okkur. Við biðjum ykkur um að virða forgang Strætó og sýna því skilning þegar vagnar þurfa að komast út af biðstöðvum og inn í umferðina á ný. Aukinn skilningur okkar allra í umferðinni er forsenda þess að við getum fækkað slysum, ekki síst í ljósi þess að umferðin eykst ár frá ári.

Við erum öll hluti af þeirri umferð og sem samfélag þurfum við öll að taka ábyrgð. Strætó bs. og VÍS munu huga að öryggismálum næsta mánuðinn. Við munum gefa skilaboð til starfsfólks okkar, farþeganna, en einnig annarra í umferðinni. Vertu með okkur í átakinu og gerum alla daga að öryggisdögum.




Skoðun

Sjá meira


×