Innlent

Falleinkun á frumvarp um uppljóstrara

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Persónuvernd þyrfti að gera greinarmun á heimildarmanni og uppljóstrara segir Róbert Marshall, fyrsti flutningsmaður frumvarps um vernd uppljóstrara.
Persónuvernd þyrfti að gera greinarmun á heimildarmanni og uppljóstrara segir Róbert Marshall, fyrsti flutningsmaður frumvarps um vernd uppljóstrara. Fréttablaðið/Hörður
„Það þarf að fara mjög vandlega yfir þessar ábendingar,“ segr Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, um harða gagnrýni Persónverndar á frumvarp um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara.

Róbert og aðrir þingmenn Bjartrar framtíðar auk þingmanna Pírata flytja frumvarpið um uppljóstrara.

„Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að uppljóstrurum, sem miðla upplýsingum um misgerð eða það sem þeir eru í góðri trú um að sé misgerð, verði veitt vernd gagnvart lögsóknum og annars konar aðgerðum,“ segir Persónuvernd um tilgang lagasetningarinnar.

Að sðgn Persónuverndar skorti mjög á að í frumvarpinu sé fjallað sé um rétt þeirra sem bornir eru ávirðingum og á hver eigi að rannsaka tilkynningar um meintar misgerðir. Athugasemd er gerð við refsileysi gagnvart trúnaðar- og þagnarskylduákvæðum laga.

„Ekki er unnt að skilja þetta ákvæði öðruvísi en svo að til dæmis læknar og heilbrigðisstarfsmenn mættu ávallt rjúfa skyldu sína til þagmælsku um hagi sjúklingi sé slíkt trúnaðarrof þáttur í uppljóstrun,“ segir Persónuvernd sem „varar sterklega“ við því að slík regla sé lögfest.

Þá sé litið fram hjá því að friðhelgi einkalífs manna njóta verndar samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Ákvæði frumvarpsins um að aflétta þagnarskyldu samræmist ekki sjónarmiðum um meðalhóf. Skýra þurfi betur samhengi frumvarpsins við aðra löggjöf sem veiti vernd vegna uppljóstrana einkum ákvæði fjölmiðlalaga um vernd heimildarmanna.

Segir Persónuvernd að lokum að gera þurfi „umtalsverðar breytingar“ til þess að frumvarpið geti „talist fela í sér viðunandi og skýran lagaramma“.

Róbert Marshall segir Persónuvernd ekki gera greinarmun á heimildarmanni annars vegar og uppljóstrara hins vegar. Tekið sé á þætti heimildarmanna í nýlegum fjölmiðlalögum. Mikilvægt sé að uppljóstrurum verði ekki refsað, til dæmis með atvinnumissi.

„Það þarf sérstaka löggjöf til að búa til lagaskjól fyrir þá sem eru að upplýsa um athafnir sem samfélagið metur að sé nauðsynlegt að upplýsa,“ segir þingmaðurinn.

Þekktir uppljóstrarar

Úr greinargerð með frumvarpi um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara:

„Fjöldamörg alþekkt dæmi má nefna erlendis frá, eins og Mark Felt sem gekk undir nafninu Deep Throat en hann upplýsti blaðamennina Woodward og Bernstein um misgerðir Richards Nixons á meðan hann gegndi embætti forseta Bandaríkjanna.

Þá má nefna Karen Silkwood sem ásakaði Kerr-McGee-orkuveituna um umhverfisafglöp og lést sviplega skömmu seinna.

Sherron Watkins gegndi lykilstöðu hjá bandaríska orkufyrirtækinu Enron. Þegar hún tilkynnti Kenneth Lay, stjórnarformanni fyrirtækisins, um stórfelldar bókhaldsmisfellur hjá fyrirtækinu var hún færð niður um stöðu og hætti síðan störfum ári síðar.

Nýlegustu erlendu dæmin eru uppljóstranir sem farið hafa fram á vefsíðunni WikiLeaks.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×