Innlent

Vilja friðlýsa sjö hús á Ingólfstorgi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Mörg hús við Ingólfstorg verða friðlýst samkvæmt tillögu Minjastofnunar Íslands.
Mörg hús við Ingólfstorg verða friðlýst samkvæmt tillögu Minjastofnunar Íslands. Mynd/Loftmyndir
„Það er ekki það að nokkurt af þessum húsum sé í bráðri hættu enda eiga þau öll að standa samkvæmt skipulagi en það er verið að árétta að þarna sé um að ræða mjög mikilvæga heild,“ segir Pétur Ármannsson, sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands sem leggur til friðlýsingu sjö timburhúsa við Ingólfstorg.

Öll húsin sjö eru þegar friðuð enda orðin eitt hundrað ára. „Það er verið að árétta að þarna er ein varðveisluheild sem liggur á þrjá vegu í kring um aðaltorg bæjarins og liggur líka að elstu götu hans, Aðalstræti,“ útskýrir Pétur nánar.

Vallarstræti 4 til vinstri og Aðalstræti 7 til hægri á að friðlýsa.Fréttablaðið/Stefán


Húsin sem um ræðir eru Aðalstræti 7, Austurstræti 3, Austurstræti 4, Hafnarstræti 4. Thorvaldsensstræti 2, Vallarstræti 4, Veltusund 3 og 3b.

„Það eru tvö hús við Ingólfstorg sem þegar eru friðlýst; Aðalstræti 2 og Fálkahúsið í Hafnarstræti 1 til 3. Þetta eru heillegustu leifarnar af gömlu Reykjavík í Kvosinni,“ segir Pétur.

Þá bendir Minjastofnun á að þessu tengist tvö friðlýst hús sem ekki standa uppi við sjálft torgið, Thorvaldsensstræti 2 og austurhluti Hafnarstrætis 4. Þá sé göturými Vallarstrætis, milli Thorvaldsensstrætis og Veltusunds, eina dæmið sem til er um þrönga hliðargötu í Kvosinni.

Fálkahúsið er við Hafnarstræti 1-3 til vinstri á myndinni. Það er friðlýst.Fréttablaðið/Stefán


Sigurður Einarsson, einn fimm nefndarmanna í húsfriðunarnefnd, greiddi atkvæði á móti friðlýsinguni og segir hana óþarfa. Tilvist húsanna sé fest í sessi í deiliskipulagi og skipulagstillögu fyrir Landsímareit. Þau séu einnig friðuð samkvæmt lögum um menningarminjar. Allar tillögur að framkvæmdum sem tengjast þeim muni því koma inn á borð Minjastofnunar Íslands.

Austurtræti 3 er eitt húsanna sem lagt er til að friðlýsa.Fréttablaðið/Stefán


Þá bætir Sigurður við að atriði í umsögn Minjastofnunar um skipulagstillögu fyrir Landsímareitinn gefi „tilefni til að óttast frekari íhlutun stofnunarinnar í útlit og frágang nýbygginga en eðlilegt getur talist fyrir þróun byggingarlistarinnar“.

Pétur segir friðlýsingu taka til ytra byrðis húsa og takmarka á mjög óverulegan hátt nýtingu þeirra. „Það er aðallega verið að að varðveita útlit þeirra og samhengi. Auðvitað hefur þetta áhrif þegar verið er að meta nýbyggingar sem tengjast inn í þessa röð þannig að þær falli vel að því sem fyrir er.“

„Um er að ræða eina heillegustu þyrpingu reisulegra timburhúsa í elsta hluta Reykjavíkur,“ segir í rökstuðningi fyrir friðlýsingu húsa við Ingólfstorg.Fréttablaðið/Stefán




Pétur segir friðlýsingu taka til ytra byrðis húsa og takmarka á mjög óverulegan hátt nýtingu þeirra. „Það er aðallega verið að að varðveita útlit þeirra og samhengi. Auðvitað hefur þetta áhrif þegar verið er að meta nýbyggingar sem tengjast inn í þessa röð þannig að þær falli vel að því sem fyrir er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×