Innlent

Þungar skattaálögur vinna gegn jarðstrengjavæðingu

Svavar Hávarðsson skrifar
Loftlínur, með öllu sem þeim fylgja, eru mikil mannvirki og þyrnir í augum margra.
Loftlínur, með öllu sem þeim fylgja, eru mikil mannvirki og þyrnir í augum margra. fréttablaðið/anton
„Það er alveg með ólíkindum að jarðstrengir skuli bera 15 prósenta vörugjöld á meðan allur búnaður sem fer til loftlína ber ekkert slíkt. Vilji menn leggja sitt af mörkum til að jarðstrengir verði raunhæfur kostur þá geta menn ekki gert þann kost vísvitandi dýrari,“ segir Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets. Hann kallar eftir stefnumörkun stjórnvalda er varðar flutningskerfi raforku.

„Þetta er einn af þeim þáttum sem gerir kostnaðinn meiri hér en erlendis. Þó margt annað skipti máli þá blasir þetta við.“

Eins og kunnugt er greinir Landsnet og aðra hagsmunaaðila á um muninn á kostnaði við að leggja loftlínu annars vegar og jarðstreng hins vegar. Landsnet segir hann margfaldan en á móti eru tekin dæmi frá öðrum löndum þar sem sá munur er jafnvel enginn. Þegar Anholt-strengurinn danski var lagður reyndist stofnkostnaður á kílómetra einungis um 1,5 sinnum hærri.

Bændablaðið fjallaði á fimmtudag um lagningu háspennu jarðstrengja í Frakklandi. Þar kemur fram að kostnaðurinn við lagningu jarðstrengja þar í landi sé sá sami og við lagningu loftlínu miðað við 45 ára afskriftartíma. Byggðu upplýsingarnar á heimsókn áhugamanna frá Íslandi til RTE, fransks orkuflutningsfyrirtækis. Yfirstjórn Landsnets heimsótti fyrirtækið tveimur vikum fyrr, kemur fram í umfjöllun blaðsins.

En upplýsingarnar frá Frakklandi breyta ekki myndinni hvað varðar Ísland, segir Þórður. „Það eru svo mörg atriði er varða kostnaðinn sem eru ólík hjá þeim og okkur“, og vísar hann meðal annars í skattaálögur stjórnvalda hér á landi.

Þórður segir hins vegar að Landsnet sé að endurskoða þessi mál og ljóst að kostnaður fer lækkandi. „Við erum að endurskoða allar okkar áætlanir um jarðstrengi; ekki síst einstaka kostnaðarþætti er varða jarðstrengjavæðingu.“

Um sátt í þjóðfélaginu varðandi uppbyggingu flutningskerfisins með jarðstrengjavæðingu segir Þórður. „Við höfum verið að kalla eftir að þessi mál séu skoðuð af stjórnvöldum og mótuð stefna í jarðstrengjamálum, og ráðherra er að hreyfa við þessu máli þessa dagana,“ segir Þórður.

Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ráðherra vill stefnumótun og þjóðarsátt

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði fyrr í október fram skýrslu varðandi mótun stefnu um lagningu raflína í jörð. Þar kemur fram eindregin skoðun ráðherra að nauðsynlegt sé að stjórnvöld móti skýra stefnu um framtíðaruppbyggingu. 

Þar segir ráðherra: „Þar sem hér er um að ræða eina af grundvallarstoðum í orkumálum Íslands er æskilegt að um framtíð þessara mála ríki almenn sátt. […] Markmiðið er því að í framhaldi af umræðu um skýrslu nefndarinnar muni stjórnvöld móta opinbera stefnu að því er snertir lagningu raflína í jörð og framtíðaruppbyggingu raforkukerfisins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×