Innlent

Upplýsingaskilti sýni ökumönnum heppilegan hraða

Brjánn Jónasson skrifar
Upplýsingaskilti þar sem ökumenn fá ráðleggingar um hraða gætu dregið úr slysum, mengun og sliti á götum.
Upplýsingaskilti þar sem ökumenn fá ráðleggingar um hraða gætu dregið úr slysum, mengun og sliti á götum. Fréttablaðið/Vilhelm
Umferðarstýring á stofnbrautum borgarinnar tekur hvorki tillit til veðuraðstæðna né aukins álags af öðrum ástæðum. Með því að bæta tækjabúnað og eftirlit mætti fækka umferðarslysum, draga úr mengun og sliti á götum segir Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Það er öruggt mál að það má gera betur,“ segir Júlíus Vífill. Hann vill að sett verði upp upplýsingaskilti fyrir ökumenn þar sem meðal annars komi fram ráðlegur hraði til að ekki þurfi að stoppa á rauðu ljósi.

Alls eru 114 ljósastýrð gatnamót í Reykjavík. Af þeim eru um 50 tengd tölvukerfi sem samhæfir ljósin og breytir lengd þeirra eftir umferðarþunga. Kerfið skiptir á milli fjögurra fyrirfram forritaðra stillinga sem hugsaðar eru fyrir mismunandi tíma sólarhringsins.

„Það er óeðlilegt að tölvan sem stýrir umferðarljósunum taki ekki mið af aðstæðum,“ segir Júlíus Vífill. Hann nefnir að utanaðkomandi aðstæður eins og snjór og hálka, eða fjölsóttur viðburður, geti sett samstillingu ljósanna í uppnám.

Júlíus Vífill Ingvarsson
„Það ætti að setja upp upplýsingaskilti þar sem bílstjórar geta séð á hvaða hraða væri heppilegt að aka til að þurfa ekki að stoppa á rauðu ljósi,“ segir Júlíus Vífill. Með því megi draga úr hraðakstri, enda freistist ökumenn gjarnan til að auka hraðann til að ná grænu ljósi framundan, með tilheyrandi slysahættu.

Júlíus segir einnig hægt að hugsa sér að mannsaugað komi meira að umferðarstýringu. Með myndavélum á gatnamótum gæti einn maður fylgst með umferðinni og gert breytingar á ljósunum ef þurfa þyki.

„Það er margt í boði þegar kemur að umferðarstýringu, og því þarf ekki að fylgja mikill kostnaður,“ segir Júlíus Vífill. Hann bendir á að umferðarslys kosti þjóðarbúið 25 til 30 milljarða króna á ári, og fé varið til að draga úr þeim kostnaði sé vel varið.

Stefán Agnar Finnsson, yfirverkfræðingur á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, segir ekki einfalt mál að stilla ljós þannig að ökumenn geti haldið jöfnum hraða og ekki þurft að stoppa á rauðu ljósi. Það sé auðveldast þegar jafnt bil sé á milli ljósa, en því sé ekki að heilsa í Reykjavík. Þess vegna verði alltaf einhver truflun, sérstaklega á álagstímum, óháð því hvernig ljósin séu stillt og hversu góð samhæfingin sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×