Skoðun
Gunnar Bragi Sveinsson
utanríkisráðherra

Norðurslóðir í brennidepli

Gunnar Bragi Sveinsson skrifar

Þessa vikuna eru haldnar þrjár spennandi alþjóðaráðstefnur á Íslandi þar sem norðurskautssvæðið er í brennidepli. Skoðanaskipti og umræða um norðurslóðamál eru rauður þráður í stefnu íslenska stjórnvalda og styrkir ábyrga stefnumótun um málefni svæðisins. Yfirskrift og inntak ráðstefnuhaldsins er víðtækt og tekur á málefnum sem eru efst á baugi í okkar heimshluta, m.a. orkumál, alþjóðalög og alþjóðasamstarf.

Það er ekki tilviljun að tvær af þessum þremur ráðstefnum fara fram á Akureyri. Háskólinn á Akureyri, ásamt Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og skrifstofum vinnuhópa Norðurskautsráðsins þar í bæ, hefur um langt árabil haft forystu um fræðilega umræðu um málefni heimskautasvæða.

Orkumálin eru umfjöllunarefni Orkuþings norðurslóða sem fer fram á Akureyri þessa dagana. Þingið er hluti af málefnavinnu starfshóps Norðurskautsráðsins um sjálfbæra þróun sem Ísland og Bandaríkin leiða. Leit, vinnsla og nýting orkuauðlinda norðursins felur í sér áskoranir og tækifæri sem mikilvægt er að ræða.

Alþjóðalög og lögfræðileg álitamál sem tengjast heimskautasvæðunum í suðri og norðri eru viðfangsefni ráðstefnu um heimskautarétt sem hefst á Akureyri 11. október á vegum Háskólans á Akureyri og Heimskautaréttarstofnunar. Viðbrögð við hraðfara breytingum á náttúrufari, samfélögum og auðlindanýtingu þurfa að eiga sér styrka stoð í alþjóðalögum. Jafnframt er brýnt að fjalla um það hvernig við bregðumst við breyttum veruleika, til dæmis í samningagerð og við stjórnun auðlinda.

Það fer vel á því að heimskautaréttarráðstefnan teygi sig til Reykjavíkur 13. október. Þar rennur hún saman við ráðstefnuna Hringborð norðurslóða, sem undir forystu hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, er kröftugt innlegg í alþjóðlega umræðu um heimskautasvæðin.

Íslensk stjórnvöld leggja sín lóð á vogarskálarnar til að efla umfjöllun um norðurslóðamál. Það eykur skilning á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir og styrkir stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Ráðstefnurnar eru allar þarft innlegg í þessa umræðu og það er fagnaðarefni að svo öflugt starf fari fram hér á landi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.