Skoðun

Kurteisi og málefnaleg umræða

Jón Þór Ólafsson skrifar
Niðurstöður nýlegrar rannsóknar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um traust til Alþingis eru borðliggjandi. Þjóðin treystir ekki Alþingi og er umræðuhefð þingmanna helsta ástæðan. Um 80% landsmanna vantreysta Alþingi vegna samskiptamáta þingmanna. En meirihlutinn telur líka að það myndi auka traust Alþingis mikið ef við þingmenn sýndum hver öðrum meiri kurteisi og stunduðum málefnalegri umræðu á Alþingi.

Þetta ætti ekki að koma þingmönnum á óvart. Við sáum þetta skýrt í kosningabaráttunni í vor. Frambjóðendurnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Katrín Jakobsdóttir, sem voru áberandi málefnaleg og kurteis í sínum málflutningi, voru hvað eftir annað kosin af netverjum sem sigurvegarar umræðna í sjónvarpssal. Rannsókn Félagsvísindastofnunar segir að þjóðin er þreytt á karpi og virðingarleysi þingmanna sín á milli, og einnig í sinn garð. Hún sýnir að þjóðin vilji nýja umræðuhefð og að þingmenn viðurkenni mistök.

Stjórnmálahefðin á Íslandi hefur verið sú að viðurkenna ekki mistök. En nýr þingmaður Framsóknarflokksins, hann Frosti Sigurjónsson, baðst á dögunum opinberlega afsökunar á mistökum og fékk réttilega mikið lof fyrir. Nú fer hann fyrir óformlegum hópi nýrra þingmanna sem munu hittast á næstu vikum til að vinna að bættri umræðuhefð á Alþingi. Markmið hópsins er að sammælast um góð fordæmi að kurteisari og málefnalegri umræðu í þingsal. Undirritaður styður Frosta heilshugar og mun að hans beiðni starfa í hópnum. Komum okkur að verki og hleypum einhverju mikilvægara að í umræðuna.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×