Innlent

Telur hægt að selja farþegum skemmtiferðaskipa meira

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Einar Þ. Einarsson í Icecard sér mikil tækifæri til sölu varnings fyrir ferðamenn,á Skarfabakka.
Einar Þ. Einarsson í Icecard sér mikil tækifæri til sölu varnings fyrir ferðamenn,á Skarfabakka. Fréttablaðið/GVA
„Við teljum að þetta geti skapað góðar tekjur og mikla vinnu fyrir þá aðila sem að þessu koma,“ segir Einar Þ. Einarsson hjá Icecard í bréfi til Faxaflóahafna þar sem óskað er eftir aðstöðu fyrir sölutjöld á Skarfabakka.

Hugmynd Einars er sú að sett verði upp tvö samtals fimm hundruð fermetra sölutjöld við hlið núverandi þjónustuhúss fyrir ferðamenn á Skarfabakka. Ætlunin sé að bjóða upp á íslenskar vörur; handverk, listmuni og annað á þeim tímum sem skemmtiferðaskip leggi að bryggju. Fyrirtæki og einstaklingar geti leigt þar bása.

„Við gerum ráð fyrir í fyrstu að um fjörutíu aðilar verði með söluaðstöðu og að hver hafi um tíu fermetra sölupláss,“ segir Einar í bréfi sínu.

 

Taka ekkert frá miðbænum

Einar bendir á að farþegar skemmtiferðaskipa staldri oftast afar stutt við, oft ekki nema níu til tólf klukkutíma. Margir þeirra velji að fara í skoðunarferðir til að sjá það sem landið hafi upp á bjóða og hafi því ekki tíma til að fara líka í verslunarleiðangur í miðborginni. Þetta fólk hafi hins vegar áhuga á að kaupa minjagripi og sölutjöld við skipshlið gætu mætt því.

Að sögn Einar yrði um hreina viðbót að ræða í sölu varnings til þeirra sem í skipunum eru. Ekki sé verið að taka frá verslun í miðborginni. „Þvert á móti,“ segir Einar í bréfinu. „Hér er um aðstöðu [að ræða] sem öllum stendur til boða sem selja íslenskar vörur.“

Hættur við fríhöfn við skipshlið

Erlend skemmtiferðaskip sem hafa viðkomu í Reykjavík leggja flest að Skarfabakka í Sundahöfn. Einar hefur áður óskað eftir að koma þar upp fríhöfn fyrir farþega skipanna, á líkan hátt og gerist í flughöfnum í millilandaflugi. Hafnaryfirvöld sáu þessari hugmynd margt til fyrirstöðu og er Einar nú fallinn frá henni.

„Söluaðilar munu selja sína vörur eins og á öðrum stöðum, það er taxfree gegn brottfararspjaldi, er útskýrt í bréfi Einars sem kynnt var á síðasta fundi stjórnar Faxaflóahafna og rætt verður á næsta fundi stjórnarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×