Skoðun
Árni Svanur Daníelsson
prestur og upplýsingafulltrúi Biskupsstofu

Skoðun á hatri og kærleika

Árni Svanur Daníelsson skrifar

Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Samtakanna "78 skrifaði um skoðanir og hatursorðræðu í Fréttablaðinu í síðustu viku. Hún sagði þar:
„Svo ég taki dæmi um manneskju sem ber mikla ábyrgð í opinberri umræðu vil ég nefna biskup Íslands. Eftir því sem ég best veit kemur enn til greina að hún taki þátt í samkomu þar sem aðalstjarnan er bandarískur predikari sem hefur það að gróðalind að miðla hatursáróðri um hinsegin fólk. Biskup segist sjálf annarrar skoðunar en predikarinn en hefur látið í ljós að hún telji best að nokkurs konar samtal fari fram.
Um leið og ég þakka henni kærlega stuðning við málstað hinsegin fólks vil ég spyrja hvort sá stuðningur mætti ekki vera afdráttarlausari.“
Biskup Íslands hefur ekki notað orðið „skoðun“ til að lýsa orðum Franklins Graham um samkynhneigða, það er komið annars staðar frá. Annars tek ég undir með Önnu Pálu að okkur beri að gera skýran greinarmun á skoðunum sem eru studdar rökum og áróðri sem byggir á hatri. Annað má rökræða. Hitt er ekki til umræðu.
Jesús mætti hatri með kærleika. Í því fólst ekki samþykki á hatrinu. Hann gaf ekkert eftir í baráttunni gegn ofbeldi. Hann fór ekki fram með yfirgangi heldur friðsemd og ákveðni. Við eigum að taka hann til fyrirmyndar.
Heiðarlegt og einlægt samtal ásamt hugrekki til að orða og afhjúpa ofbeldi er lykill að bættu samfélagi. Við eigum að nýta hvert tækifæri til að tala fyrir hinu góða og berjast gegn því slæma.
Þjóðkirkjan hefur tekið afstöðu með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra og hjónabandi samkynhneigðra. Umræða undanfarinna daga hefur leitt í ljós að fordómar í garð samkynhneigðra leynast víða í samfélaginu. Við þurfum að taka höndum saman gegn þeim.
Ég vona að Samtökin "78 með Önnu Pálu Sverrisdóttur í forystu og þjóðkirkjan með Agnesi M. Sigurðardóttur í forystu geti átt gott og afdráttarlaust samstarf um það.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.