Skoðun

Er Seðlabankinn miðstöð skipulegrar brotastarfsemi ?

Þorsteinn Víðir Þórðarson skrifar
Hilda ehf., dótturfélag Seðlabanka Íslands, var stofnað 2009 til að halda utan um og innheimta skuldabréf einstaklinga og smærri fyrirtækja og ætlað að hámarka virði safnsins eins og segir í skýrslu S.Í. Ekki var pláss fyrir félagið í húsakynnum bankans og ekki hafði S.Í. efni á að skrá síma hjá Hildu og því var holað niður á 15. hæð að Borgartúni 2.

Hildu var sem sagt ætlað að hámarka eignasafnið, en fara hljóðlega að því.



Til þess var fenginn undirverktaki að nafni Drómi, en það fyrirbæri er skilgetið afkvæmi Seðlabanka, FME og fjármálaráðuneytis. Drómi var sem sé í hlutverki handrukkarans á götunni og látinn beita öllum tiltækum ráðum, ólöglegum sem löglegum, að undirlagi Hildu ehf. Takið eftir, nákvæmlega sömu vinnubrögð og hjá dópsölum. Af hverju var Hilda ehf. ekki skráð á Sikiley ?



Þrátt fyrir marga dóma Hæstaréttar um hvernig eigi að reikna út ólögleg gengistryggð lán og bannað afturvirka vexti hefur Drómi hunsað þessa dóma og skipulega reynt að rugla skuldara með alls konar tilvitnunum í dóma um bílasamninga, sem koma fasteignalánum ekkert við. Allt gert til að rugla almenning í ríminu.

 

Munum, að það var Seðlabankinn sem sendi út leiðbeinandi reglur til fjármálafyrirtækja, eftir að ljóst var að gengistryggðu lánin voru ólögleg, um að reikna seðlabankavexti aftur í tímann. Fjölmargir aðilar vöruðu við þessu sem brot á stjórnarskrá. Hæstiréttur hefur staðfest að svo sé.

 

Munum einnig að FME lýsti yfir stuðningi við þessar reglur og einnig ríkisstjórnin, sem setti í kjölfarið svokölluð ÁrnaPáls-lög. (Hissa á fylgistapi?). Maður spyr sig af hverju S.Í. er svo tregur til að lækka stýrivexti. Er það vegna eigin lánasafna?



Eftir höfðinu dansa limirnir

Aðrar peningastofnanir á landinu hafa S.Í. sem fyrirmynd og hunsa lög og reglur, samanber Landsbankinn sem dregur lappirnar endalaust og Lýsing, sem er margdæmd fyrir brot, lýsir nú yfir að skuldarar geti lýst kröfu á hendur þeim. Þeir ætla sem sé ekkert að gera og virðast komast upp með það.



Sjálfdæmi

Hvernig stendur á því í þessu landi, sem kallar sig lýðræðisríki og að allir séu jafnir fyrir lögum, er dæmdum glæpafyrirtækjum veitt sjálfdæmi um hvort farið sé eftir dómum HR eða ekki. Hvað ef við snúum dæminu við og gengistryggingin verið dæmd lögleg, hefðu þá skuldarar sjálfdæmi um hvort þeir borguðu eða ekki? Til að fá úr þessu skorið hef ég kært til Sérstaks saksóknara framferði og útreikningsaðferðir Seðlabankans og Hildu ehf.




Skoðun

Sjá meira


×