Samkvæmt frumvarpinu er áætlað að veiðigjöld skili ríkinu alls 9,8 milljörðum króna á næsta fiskveiðiári sem hefst 1. september. Nái það fram að ganga verða veiðigjöld því talsvert lægri en til stóð því áætlað hefur verið að veiðigjöld myndu skila 13,8 milljörðum á næsta fiskveiðiári og síðan hækka ár frá ári til fiskveiðiársins 2016 til 2017.
Munurinn er ríflega fjórir milljarðar en á móti gætu tekjuskattsgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja hækkað um allt að 600 milljónir þar sem lægri veiðigjöld leiða til minni frádráttar frá tekjuskattstofni.
Sigurður Ingi segir að með lækkun sérstaka veiðigjaldsins sé brugðist við neikvæðum áhrifum þess á sjávarútvegsfyrirtæki auk þess sem tekið sé tillit til þess að verð á bolfisksafurðum hafi lækkað um allt að 30% á mörkuðum.
„Við höfðum af því áhyggjur að sérstaka veiðigjaldið myndi leggjast af miklum þunga á ákveðinn hluta útgerðarinnar. Það hefur komið á daginn strax fyrsta árið að fyrirtæki hafa þurft að segja upp fólki og þá hefur orðið samþjöppun í greininni,“ segir Sigurður og bætir við að við því hafi orðið að bregðast.
Alþingi samþykkti lögin um sérstakt veiðigjald í lok júní 2012. Kveða þau á um að útgerðir greiði hlutfall af framlegð í gjald. Á fyrsta fiskveiðiárinu, því yfirstandandi, var þó ákveðið að byggja gjaldtökuna á fastri krónutölu á þorskígildiskíló. Samkvæmt frumvarpi Sigurðar Inga verður gjaldtakan með svipuðum hætti.

Sigurður Ingi segir hins vegar að varanlega breytingin verði ekki í anda þess frumvarps sem nú hefur verið kynnt. „Við erum að bregðast við þessum vanda með mjög stuttum fyrirvara enda áttu lögin, sem komið hefur í ljós að eru óframkvæmanleg, að taka gildi 1. september. Því erum við nú að leysa þann vanda til bráðabirgða.“
Þá segir Sigurður Ingi að varanlega breytingin muni byggja á þeirri hugmyndafræði sem ríkisstjórnin kynnti í stjórnarsáttmála sínum um fast veiðigjald og afkomutengt gjald. „Vinna við þá breytingu er hafin en frumvarpið nú byggir ekki á henni. Það miðast annars vegar við að taka tillit til þessara þátta sem ég nefndi áðan og hins vegar það að ríkissjóður þarf á fjármunum að halda í ljósi versnandi afkomu.“
Verði frumvarpið að lögum er áætlað að veiðigjöld muni skila ríkissjóði 9,8 milljörðum í tekjur á næsta fiskveiðiári. Sú upphæð gæti hins vegar lækkað. Þannig var áætlað að veiðigjöld myndu skila 10,5 milljörðum á yfirstandandi fiskveiðiári. Raunveruleg upphæð verður hins vegar nær 8,3 milljörðum þar sem skuldsettar útgerðir hafa fengið afslátt af sérstaka veiðigjaldinu. Sá afsláttur verður áfram í boði á næsta fiskveiðiári.

Þá segir Katrín að tímasetningin á lækkun veiðigjaldsins sé einkennileg í ljósi sterkari stöðu fiskistofna. „Nú liggur fyrir ný veiðiráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun sem bendir til þess að óhætt sé að veiða meiri fisk á næsta fiskveiðiári og spáir stofnunin aukningu á útflutningsverðmæti um 15 til 16 milljarða króna. Þannig að ég hefði talið að útgerðin ætti að vera aflögufær á þessum tímapunkti.“