Skoðun

Opið bréf til Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra

Kristín Elva Viðarsdóttir skrifar

Virðulegi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson.

Sálfræðingar á Norður- og Austurlandi hafa miklar áhyggjur af stöðu mála í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga á svæðinu. Eins og vitað er hefur enginn barna- og unglingageðlæknir verið starfandi utan höfuðborgarsvæðisins frá því í mars síðastliðnum. Þetta hefur nú þegar haft slæm áhrif.

Foreldrar ráðalausir

Foreldrar, sem áður nutu geðlæknisþjónustu fyrir börn sín á Sjúkrahúsinu á Akureyri, standa nú uppi ráðalausir. Ekki er neina lausn að fá af höfuðborgarsvæðinu. Þar er staðan einnig erfið og svörin sem foreldrar fá eru oft á þá lund að sérfræðingar þar taki ekki við nýjum sjúklingum. Í stuttu máli stefnir í ófremdarástand ef ekki verður hægt að tryggja geðlæknisþjónustu fyrir börn og unglinga á Norður- og Austurlandi.

Á borð ráðherra án tafar

Nú þarf heilbrigðisráðherra að taka mál þessara skjólstæðinga sinna inn á sitt borð án tafar. Við væntum mikils af þér og nýrri ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, þar sem báðir flokkar hafa það á stefnuskrá sinni að börn á landsbyggðinni geti notið aðgengis að sem bestri geðheilbrigðisþjónustu í sínu nærumhverfi.

Hörmungarástand í uppsiglingu

Við skorum á þig, Kristján Þór Júlíusson, að ganga í málið, að sjá til þess að Norður- og Austurland geti boðið æsku sinni upp á nauðsynlega geðlæknisþjónustu. Þannig getur þú bjargað börnum, foreldrum þeirra og samfélagi þeirra frá hörmungarástandi sem nú er í uppsiglingu.

Fyrir hönd stjórnar Félags sálfræðinga á Norður- og Austurlandi, Kristín Elva Viðarsdóttir




Skoðun

Sjá meira


×