Viðskipti innlent

Laun hækka milli fjórðunga

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ef horft er til launabreytinga milli ára hækkuðu laun á fyrsta ársfjórðungi mest í fjármálastarfsemi, um 7,6 prósent.
Ef horft er til launabreytinga milli ára hækkuðu laun á fyrsta ársfjórðungi mest í fjármálastarfsemi, um 7,6 prósent. Mynd/Samsett

lRegluleg laun voru að meðaltali 2,4 prósentum hærri á fyrsta ársfjórðungi 2013 en í ársfjórðungnum á undan, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.

„Frá fyrra ári hækkuðu laun um 5,3 prósent að meðaltali, hækkunin var 5,8 prósent á almennum vinnumarkaði og 4,1 prósent hjá opinberum starfsmönnum,“ segir á vef Hagstofunnar.

Þá kemur fram að frá fyrri ársfjórðungi hafi laun hækkað mest í iðnaði eða um 3,1 prósent, en minnst í samgöngum og byggingarstarfsemi, um 2,5 prósent.

Um leið kemur fram að laun hafi milli ársfjórðunga hækkað um 2,7 prósent í verslun og 2,9 prósent í fjármálaþjónustu. „Frá fyrra ári hækkuðu laun mest í fjármálaþjónustu eða um 7,6 prósent en minnst í iðnaði eða um 5,2 prósent,“ segir á vef Hagstofunnar.

Fram kemur að í vísitölu launa á fyrsta ársfjórðungi 2013 gæti áhrifa hækkana sem kveðið hafi verið á um í kjarasamningum sem undirritaðir voru á árinu 2011.

„Í kjarasamningum milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins var kveðið á um almenna hækkun launataxta um 3,25 prósent þann 1. febrúar 2013.“

Þá hafi í kjarasamningum fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, við stærstu stéttarfélög opinberra starfsmanna verið almenn hækkun launataxta um 3,25 prósent í mars 2013.

„Og í kjarasamningum milli Sambands íslenskra sveitarfélaga við stærstu stéttarfélög opinberra starfsmanna var kveðið á um hækkanir á launatöflum frá 1. mars 2013,“ segir í frétt Hagstofu Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×